„Vildi hvorki deyja svona né lifa svona“

Sonali Mukherjee.
Sonali Mukherjee. AFP

Líf hinar 17 ára gömlu Sonali Mukherjee breyttist í einni andrá þegar skólabræður hennar köstuðu yfir hana sýru sem brenndi augu hennar og nef, varir, höfuðkúpu og brjóst. 10 árum og 27 skurðaðgerðum síðar berst hún enn fyrir réttlæti, en mennirnir sem rústuðu lífi hennar fengu tveggja ára fangelsisdóm.

„Ég var varla byrjuð að lifa lífinu, en þetta eina atvik varð til þess að umturna allri ævi minni. Það var eins og öll birta hefði verið slökkt, myrkrið umlukti mig frá öllum hliðum. Ég átti enga von, ég vissi ekki hvað ég gæti gert,“ segir Sonali í viðtali við CNN í dag.

Hún er nú 27 ára gömul og segir að eftir sýruárásina hafi hún verið eins og lifandi lík. Það tók sýruna aðeins örfáar sekúndur að brenna sig inn í andlit hennar og svipta hana sjón, heyrn og máli. Hún gat hvorki borðað né gengið.

Fyrirmyndarnemandi sem hafnaði áreitni

Framtíðin brosti við þessari ungu stúlku árið 2003. Hún var metnaðarfullur námsmaður sem fékk verðlaun við útskrift, var formaður stúdentafélagsins og hafði unnið verðlaun í skotfimi. Markmið Sonali var að ljúka doktorsgráðu í félagsfræðum. Foreldrar hennar eru lágstéttarfólk og hún einsetti sér að ná langt til að skapa fjölskyldu sinni betra líf.

Það breyttist allt þegar þrír samnemendur hennar gerðust ágengir við hana kynferðislega. Hún hundsaði áreitni þeirra og tók hótanirnar sem hún uppskar fyrir vikið ekki alvarlega, en einn heitan sumardag réðust þeir á hana.

Sonali var sofandi uppi á húsþaki heima hjá sér þegar þeir læddust að henni og skvettu yfir hana krukku af sýru. Hún skildi fyrst ekki hvað hafði gerst. „Það eina sem ég fann var gríðarlegur sársauki, það brann allt, eins og einhver hefði kastað mér inn í vítisloga.“

Ákvað að gefast ekki upp

Árásin var ekki aðeins áfall fyrir hana heldur alla fjölskylduna. Afi hennar dó skömmu síðar, miður sín yfir örlögum barnabarnsins og móðir hennar sökk í djúpt þunglyndi. Faðir hennar var hins vegar staðráðinn í að berjast fyrir framtíð dóttur sinnar.

„Ég get ekki lýst því hversu sárt það er að sjá dóttur mína í þessu ástandi en fjölskyldan mátti ekki við því að ég brotnaði niður,“ hefur CNN eftir Charan Das Mukherjee, föður Sonali.

Viljastyrkurinn hefur drifið þau feðgin áfram í baráttunni fyrir réttlætinu og bata hennar. „Ég ákvað að ég vildi hvorki deyja svona, né lifa svona. Ég ákvað að ég gæti ekki gefist upp, ég yrði að láta mér batna, ég yrði að refsa þessum mönnum og ég yrði að styðja fjölskyldu mína. Ég hélt í hönd föður míns og ég skreið aftur til lífsins,“ sagði Sonali við CNN.

Tók þátt í Viltu vinna milljón? og vann

Þau seldu allar helstu eignir fjölskyldunnar til að eiga fyrir læknismeðferð Sonali, sem nýlega gekkst undir sína 27. skurðaðgerð á 10 árum. Í fyrra ákvað hún svo að keppa í vinsælasta sjónvarpsþætti Indlands, Viltu vinna milljón?

Hún tók þátt vegna þess að hún þurfti á peningunum að halda, en einnig vegna þess að hún vildi að umheimurinn horfðist í augu við stöðu hennar sem fórnarlambs sýruárásar.

„Ég ólst upp við að horfa á kvikmyndirnar þínar og núna get ég ekki séð þig, en ég finn fyrir þér,“ sagði hún í sjónvarpssal við kynninn Amitabh Bachchan, sem er ein af skærustu stjörnum Indlands.

Andlitið endurmótað að hluta

Eins og gefur að skilja uppskar Sonali mikla athygli með sjónvarpsframkomu sinni en hún gerði gott betur og vann sem nemur um 5 milljónum króna. Verðlaunaféð notaði hún til að flytjast til Nýju-Delhi, höfuðborgar Indlands, til að fá bestu mögulegu læknismeðferð.

„Þegar hún kom til okkar voru 98% af andliti hennar brunasár. Hún var ekki með nein eyru, engin augu, ekkert nef, engar varir, ekkert höfuðleður né brjóst,“ hefur CNN eftir Snajeev Bagai, lækninum hennar á BLK-sjúkrahúsinu.

Bagai hefur tekist að endurmóta andlit hennar að hluta þannig að hún er nú með varir, augnlok og nef. Stóra áskorunin er enn framundan, þ.e. að gefa henni „nokkurn veginn eðlilegt andlit, eitthvað líkt útliti venjulegrar manneskju,“ segir læknirinn.

Ætlar að berjast áfram

Hvað varðar skólabræður hennar sem rústuðu lífi hennar, þá voru þeir lausir allra mála eftir tveggja ára fangelsisvist. Mukherjee hefur áfrýjað dóminum yfir þeim en málið hefur tafist árum saman án þess að vera tekið á dagskrá dómstóla.

„Faðir minn eyddi öllu sínu sparifé til þess að ná fram réttlæti. En á endanum töpuðum við öllu, og glæpamennirnir ganga lausir.“

Í apríl síðastliðnum voru gerðar lagabreytingar til að herða viðurlögin við sýrárásum, í viðbrögðum stjórnvalda við megnri reiði almennings vegna tíðra frétta af hatursglæpum gegn konum. Refsingin við sýruárás líkt og þeirri sem Sonali varð fyrir er nú allt frá 10 ára til lífstíðarfangelsis, auk fésektar.

Á vef CNN má sjá sjónvarpsviðtal við Sonali Mukherjee

Sonali Mukharjee 17 ára gömul og með bjarta framtíð framundan, …
Sonali Mukharjee 17 ára gömul og með bjarta framtíð framundan, áður en sýruárás eyðilagði á henni andlitið.
Sonali Mukherjee var fyrirmyndarnemandi á skólastyrk og stefndi á doktorsnám …
Sonali Mukherjee var fyrirmyndarnemandi á skólastyrk og stefndi á doktorsnám í félagsfræðum.
Mótmælendur í Nýju Delhi krefjast réttlætis í hatursglæpum gegn konu.m
Mótmælendur í Nýju Delhi krefjast réttlætis í hatursglæpum gegn konu.m AFP
Indverjar krefjast aðgerða vegna tíðra hatursglæpa gegn konum.
Indverjar krefjast aðgerða vegna tíðra hatursglæpa gegn konum. AFP
mbl.is