„Áfall að horfa á pabba berja mömmu“

Systurnar Thelma Ásdísardóttir og Ruth Ásdísardóttir bjuggu við ofbeldi alla …
Systurnar Thelma Ásdísardóttir og Ruth Ásdísardóttir bjuggu við ofbeldi alla sína barnæsku. mbl.is/Golli

„Það er gríðarlegt áfall sem fylgir því að horfa upp á pabba berja mömmu,“ segir Ruth Ásdísardóttir, en hún og fjórar systur hennar ólust upp við gróft og langvarandi ofbeldi í æsku. Hún segir ofbeldið á heimilinu hafa markað sig fyrir lífstíð.

Systir Ruthar, Thelma Ádísardóttir, sagði sögu sína í bókinni „Myndin af pabba“ sem Gerður Kristný skrifaði og út kom árið 2005. Þar segir hún frá langvarandi ofbeldi sem systurnar og móðir þeirra urðu fyrir. Mesta athygli vakti gróft kynferðislegt ofbeldi sem faðirinn beitti dætur sínar, en Ruth og Thelma segja að það ofbeldi sem þær urðu vitni að gagnvart móður þeirra hafi ekki síður haft alvarleg áhrif á þær.

Stundum var ekki óhætt að koma heim

Þetta ofbeldi var til staðar alla mína æsku. Ég man ekki eftir öðru en að það væri ofbeldi inni á heimilinu,“ sagði Ruth.

„Pabbi var alltaf ógn. Jafnvel þó að það hafi ekki verið stöðugt ofbeldi gegn mömmu þá var þessi stöðugi ótti til staðar, um að þetta gæti komið fyrir aftur, og þessi ótti var mjög slæmur,“ sagði Thelma.

„Maður var alltaf búinn undir átök. Maður varð sérfræðingur í að lesa í umhverfið. Þegar ég kom heim úr skólanum þurfti ég að byrja á að skanna umhverfið og kanna hvernig maður ætti að haga sér þennan daginn. Á maður að láta fara lítið fyrir sér, láta sig hverfa eða vera skemmtilegi krakkinn? Allt miðaðist við að halda friðinn á heimilinu,“ sagði Ruth og bætti við að hún hefði talið sér trú um að hún gæti stjórnað aðstæðum á heimilinu, en í reynd hefði það ekki verið svo.

Thelma sagðist hafa upplifað barnæskuna með sama hætti. Öll tilveran hefði snúist um hvernig pabba leið. Börnin hefðu reynt að haga sér eins og þau töldu að hann vildi hafa hlutina í það og það skiptið. „Spurningin var þegar maður kom heim úr skólanum, á maður að vera lítið krútt, á maður að fela sig, á maður að vera skemmtilegur til að hafa hann í góðu skapi eða á maður hreinlega að hlaupa aftur út? Það gerðist að maður kom heim og heyrði læti og áttaði sig á að það var ekki óhætt að koma heim og þá snéri maður bara við og fór.“

„Maður vissi ekkert hvað gæti gerst“

Systurnar horfðu oft upp á föður sinn ganga í skrokk á móður þeirra. „Það er gríðarlegt áfall sem fylgir því að horfa upp á pabba berja mömmu. Þegar ég fór að vinna úr mínum málum og upplifði svokölluð endurlit, þá var það þetta sem kom fyrst upp í hugann, þ.e. atvik sem ég varð vitni að þegar ég var mjög lítil og varð vitni að ofbeldi gegn mömmu. Þetta brýtur niður alla öryggiskennd á heimilinu. Ég var mikil mömmu-stelpa og leitaði mikið til mömmu. Þetta ofbeldi sem ég varð vitni að hafði gríðarleg áhrif á mig og maður er allt lífið að vinna úr þessu,“ sagði Ruth.

Ruth sagði að hún og eldri systur hennar hefðu reynt að koma mömmu sinni til varnar þegar þær voru komnar á unglingsaldur. Hún sagðist líka oft hafa verið í því hlutverki að reyna að þagga niður í mömmu og reyna að koma í veg fyrir að hún segði eitthvað sem æsti hann upp.

Thelma sagði að það hefði komið fyrir að hún hefði reiðst mömmu sinni fyrir að segja og gera ekki það rétta. Hún sagðist vita í dag að ofbeldið hefði ekki verið hennar sök, en þegar hún var barn hefði sjónarmið hennar einfaldlega verið, hvernig er hægt að halda friðinn?

„Þegar ég varð vitni að ofbeldi gagnvart mömmu greip mig ofsahræðsla. Það varð algjört stjórnleysi á heimilinu og maður vissi ekkert hvað gæti gerst. Við systur vorum beittar ýmiskonar ofbeldi í barnæsku, en mér fannst meira áfall að verða vitni að því að pabbi væri að meiða mömmu, en ýmislegt annað sem ég þurfti að þola,“ sagði Thelma.

„Hvers vegna þurftir þú að vera svona óþekk?“

Thelma og Ruth sögðu að þær hefðu oft kennt sjálfri sér um ofbeldið. „Pabbi sagði stundum við okkur, af því hann var alltaf að leita sér að afsökunum til að fara á fyllirí eða í aðra neyslu: „Þið eruð búnar að vera svo leiðinlegar og erfiðar að nú fer pabbi bara og kaupir flösku.“ Þá bar maður ábyrgðina á öllu því sem fylgdi í kjölfarið. Við vorum bara börn og kenndum stundum hvor annarri um hvernig staðan væri á heimilinu. Við sögðum: „Sérðu nú er pabbi fullur. Hvers vegna þurftir þú að vera svona óþekk?“


Hann var því duglegur að setja ábyrgðina á okkur. Ég held reyndar að ofbeldismaðurinn þurfi ekki að segja þetta með skýrum hætti, því krakkar taka oftast ábyrgð á sig,“ sagði Thelma.

„Það fór öll orkan í að lifa af og þola ástandið,“ sagði Ruth. Hún sagðist oft hafa notað þá aðferð að hverfa og loka hreinlega fyrir það sem var að gerast. Hún sagði þetta þekkt fyrirbrigði í sálfræði. Barnið færi þá inn í skel og sæi ekki eða heyrði það sem væri að gerast í umhverfinu.

„Ég óttaðist oft um líf mitt“

„Ég óttaðist oft um líf mitt. Hann hótaði oft að drepa okkur. Þetta var raunveruleg hætta,“ sagði Ruth.

Thelma sagði að líflátshótanirnar hefðu verið óhugnanlegar. „Hann sveiflaði hnífum fyrir fram okkur og lýsti því fyrir okkur hvað myndi gerast þegar hann myndi rista okkur upp, hvernig blóðið myndi spýtast o.s.frv. Hann sagði okkur sögur af fólki sem hefði misst öll innyflin út úr sér. Maður var því skelfingu lostinn. Síðan þegar hann ógnaði mömmu, öskureiður með hnífa í hendi, urðum við auðvitað dauðhrædd.

Ég man eftir því þegar ég var 5 ára gömul og ég náði að trufla pabba sem varð til þess að hann sló mig. Ég man að mér létti af því að mér fannst svo vont að horfa á hann lemja mömmu. Ég vildi frekar að höggin lentu á mér.“

„Þú getur ekkert gert og horfir bara á“

Ruth sagði að börn sem upplifðu svona ofbeldi finndu fyrir mikilli vanmáttarkennd. „Þú ert algjörlega bjargarlaus. Mamma var minn öryggisventill og líka eldri systur mínar og maður finnur fyrir gríðarlegum vanmætti að horfa á ástvini sína í þessari stöðu. Þú getur ekkert gert og horfir bara á.“

Ruth sagði að það hefði mikil áhrif á tilfinningalíf barna að verða vitni að ofbeldi. Hún sagðist hafa dregið sig inn í skel og lokað á allar tilfinningar. Þetta hefði verið hennar aðferð til að finna ekki fyrir sorg eða hræðslu. „Það hefur verið talað um að ein ástæðan fyrir því að þolendur ofbeldis fara í neyslu þegar þeir verða eldri sé að þá getur fólk ekki eins vel lokað á erfiðleikana með því að láta sig hverfa.“

Thelma sagðist ekki hafa tekist á við ofbeldið með alveg sama hætti. Hún sagðist reyndar líka hafa aftengt sig við raunveruleikann eins og Ruth. „Ég held að börn sem gera það ekki eigi mörg hver erfitt með að lifa af. En ég fór síðan út í það að verða mjög árvökul. Ég tók eftir öllu og var alltaf með hugann við hvort það væri eitthvað sem ég gæti gert eða sagt til að stýra þróun mála.“

Börn sem upplifa ofbeldi verða mjög meðvirk

Thelma sagði að börn sem upplifðu ofbeldi yrðu fljótlega mjög meðvirk. Þau væru stöðugt að reyna að stýra ástandinu. Þetta hefði hún tekið með sér út í lífið.

Ruth sagði að hún hefði fengið þau skilaboð að heiman að hún mætti ekki standa á sínu því það gat verið varsamt að gera það. „Allt sem aðrir sögðu var réttara en það sem manni sjálfum fannst. Það var heilmikil uppgötvun þegar ég var að verða tvítug og fór að átta mig á að ég mátti hafa skoðun og mátti segja nei.“

Ruth sagðist sem barn hafa lært að heimurinn væri óvinveittur og að umhverfið væri hættulegt. Til viðbótar við langvarandi og alvarlegt ofbeldi á heimilinu upplifði hún einelti í skóla. Hún sagði að það hefði tekið sig langan tíma að vinna úr þessu og það kæmi öðru hverju fyrir að hún upplifði þessa sömu tilfinningu.

Thelma sagði að fyrir flest börn væri heimilið öruggur staður þar sem alltaf væri hægt að leita skjóls þó að á ýmsu gengi. „Við upplifðum sjaldan þessa tilfinningu. Við fórum aldrei heim ef það var slagur í götunni því þar gat verið ennþá hættulegra að vera. Heimilið var bara vígvöllur.“

Thelma sagði að móðir sín hefði gert sitt besta og hún hefði veitt vissan takt í lífið. Hún hefði alltaf verið með heitan mat á matmálstímum og passað upp á að systurnar væru hreinar og fínar, stunduðum skólann og tækju lýsi á morgnana. Þrátt fyrir allt hefði henni tekst að tryggja vissa festu og reglu á heimilinu. Þrautseigla mömmu átti stærstan þátt í því að við komumst í gegnum þetta.

Fagnaði hjónaskilnaðinum

Fyrir flest börn er skilnaður foreldra neikvæður og honum fylgir oft mikil sorg. Ruth sagði að það hefði alls ekki átt við í sínu tilviki, en foreldrar hennar skildu þegar hún var 13 ára gömul. „Fyrir mér var skilnaður foreldra minna algjört frelsi. Ég man ennþá stundina þegar mamma kom heim með skilnaðarpappírana. Við hoppuðum af kæti og föðmuðust. Fyrir mér var hann skrímsli.“

Thelmu þótti hins vegar alla tíð vænt um pabba sinn, þrátt fyrir allt ofbeldið. Hún var flutt að heiman þegar foreldrar hennar skildu. Hún sagðist hafa verið fegin að hjónabandinu væri lokið og friður færðist yfir heimilið, en hún hefði samt fundið til með honum. Ástæðan hefði ekki síst verið meðvirkni. Hann hefði haldið áfram að hafa tök á lífi hennar þó að hún byggi ekki lengur nálægt honum.

„Okkar mál er ekki einsdæmi“

Óhætt er að segja að þjóðin hafi orðið fyrir vissu áfalli þegar bók Thelmu kom út og hún upplýsti í viðtölum um það gengdarlausa ofbeldi sem hún og systur hennar máttu þola í mörg ár. Sú spurning vaknar hvort saga þeirra sé ekki einsdæmi á Íslandi.

Thelma hefur unnið með þolendum ofbeldis undanfarin ár, en hún segir að saga þeirra systra sé ekki einsdæmi. „Það eru klárlega til dæmi hér á landi um svipaða hluti. Ég hef unnið með þolendum ofbeldis í mörg ár og hef fengið að heyra margar ljótar sögur. Það er margt fólk sem hefur þurft að þjást eins og við systur gerðum.

Það eru auðvitað margir sem hafa orðið fyrir ofbeldi og líður eins og þeir hafi orðið fyrir „litlu ofbeldi“ og finnst einmitt, eftir að hafa heyrt um okkar grófu og grimmu sögu, að það sé ekki ástæða til að gera mikið úr hlutunum. Minniháttar ofbeldi getur hins vegar haft alveg eins slæmar afleiðingar eins og gróft ofbeldi. Þetta snýst ekki um „magn ofbeldis“ heldur hvað er gert. Um leið og annað foreldri hefur ráðist á hitt í viðurvist barns þá hefur ótti grafið um sig hjá barninu. Þetta er óttinn við að þetta gerist aftur og hann skemmir og er niðurbrjótandi.“

Þörf á að styrkja barnaverndarkerfið

Thelma sagði að velferðarkerfið væri vissulega orðið sterkara í dag en það var þegar hún var barn, en við gætum á mörgum sviðum gert betur. Það þyrfti að styrkja barnaverndarkerfið með því að setja meiri fjármuni í málaflokkinn og ráða fleira starfsfólk. Hún nefndi sem dæmi að hver starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur væri með allt að 70-80 mál. Augljóst væri að viðkomandi gæti ekki sinnt öllum málum eins vel og hann vildi. Það jákvæða væri að í dag væru þolendur ofbeldis að fá miklu meiri aðstoð en áður. Slík aðstoð hefði nánast ekki verið til þegar hún var að alast upp.

Ruth sagði að nú væri gripið fyrr inn í mál og og börnin fengju fyrr aðstoð sem væri mjög mikilvægt. Inngrip fyrr væri líka liður í forvörnum og drægi úr líkum á að ofbeldið héldi áfram. Hún sagði að samfélagið þyrfti að einbeita sér að því að koma í veg fyrir að manneskja yrði gerandi, með því einmitt að grípa fljótt inn í. Við þyrftum að spyrja okkur þeirrar spurningar, af hverju verður manneskja gerandi seinna á lífsleiðinni?

„Mér finnst að samfélagið sé of meðvirkt þegar kemur að ofbeldi sem börn þurfa að þola. Fólk þegir oft ótrúlega lengi þó að barn sé að sýna augljós einkenni um að eitthvað sé að. Það er mikill ótti hjá fólki við að láta vita um að mögulega sé eitthvað að,“ sagði Ruth.

Thelma sagði að það væru því miður mörg dæmi um að sá sem stigi fram, tæki afstöðu með þolanda ofbeldis og vildi að eitthvað væri gert mætti andstöðu annarra í fjölskyldunni. Viðkomandi væri jafnvel úthýst úr fjölskyldunni. Hún sagði sárt þegar slíkt gerðist.

„Ofbeldi fer ekki í manngreiningarálit“

Ruth sagði að hafa þyrfti í huga að ofbeldismenn væri að finna í öllum stéttum samfélagsins. „Ofbeldi fer ekki í manngreiningarálit frekar en sjúkdómar. Ofbeldismenn geta verið alls staðar og þolendur geta verið alls staðar. Fólk ber ekki endilega sýnilegar afleiðingar ofbeldis utan á sér.“

Thelma sagði að það gætti stundum misskilnings um að börn sem byggju á heimilum þar sem ofbeldi væri til staðar væru óþekk eða sýndu hegðun sem benti til að eitthvað væri að. Þetta ætti alls ekki alltaf við. Hún og systur sínar hefðu alla tíð verið prúðar og stilltar og náð góðum árangri í skóla.

Thelma sagði að börn væru líka ótrúlega snjöll í að fela ofbeldið. „Ég verð oft vör við að fólk gerir ráð fyrir því að það sem barn segi um aðstæður inni á heimili sé heilagur sannleikur. Ég var sjálf mjög ung þegar ég byrjaði að ljúga til um það sem gekk á heima hjá mér. Ástæðan var að nokkru leyti ótti. Okkur var beinlínis hótað ef við segðum frá.

Börn upplifa sig líka oft sem framlengingu á sínu heimili og vilja ekki segja frá því að þau komi frá vondu heimili. Stundum finnur barnið fyrir sekt og finnst það bera að hluta til ábyrgð á ofbeldinu. Hvaða barn treystir sér til að segja: „Ég er valdur að því að pabbi réðist á mömmu mína." Svo má ekki gleyma því að börn elska foreldra sína og vilja ekki að pabbinn eða mamman fari í fangelsi eða að það verði hjónaskilnaður.“

Ruth segir að börn sem upplifa ofbeldi á heimilum finndu …
Ruth segir að börn sem upplifa ofbeldi á heimilum finndu fyrir mikilli vanmáttarkennd. mbl.is/Golli
„Ég man eftir því þegar ég var 5 ára gömul …
„Ég man eftir því þegar ég var 5 ára gömul og ég náði að trufla pabba sem varð til þess að hann sló mig. Ég man að mér létti af því að mér fannst svo vont að horfa á hann lemja mömmu. Ég vildi frekar að höggin lentu á mér,“ segir Thelma. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina