Forsvarsmenn í skoskum sjávarútvegi og skoska heimastjórnin lýstu ánægju sinni í gær með að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði tilkynnt stjórnvöldum í Færeyjum að hafinn yrði undirbúningur að mögulegum refsiaðgerðum vegna ákvörðunar þeirra að setja sér einhliða stóraukinn kvóta í norsk-íslenska síldarstofninum.
„Það eru góðar fréttir að loksins sé einhver hreyfing í átt að refsiaðgerðum sem taki á óábyrgum veiðum Færeyinga,“ segir Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands, í samtali við skoska fréttavefinn Scotsman.com. „En það veldur vonbrigðum að engin ákveðin ákvörðun skuli hafa verið tekin enn vegna þrjósku Íslendinga og Færeyinga vegna makrílveiða en ég vona að það gerist fljótlega.“
Lochhead segir að fjöldi ríkja innan Evrópusambandsins hafi lýst miklum vonbrigðum vegna þess að framkvæmdastjórn sambandsins hefði ekki enn gripið til aðgerða gegn Íslandi og Færeyjum. „Ég vona að þessi aðgerð vegna síldveiðanna muni sannfæra Færeyinga og Íslendinga um að koma aftur að samningaborðinu, með alþjóðlegum sáttasemjara ef á þarf að halda, og samþykkja langtíma samning sem tryggi stofninn til framtíðar og mikilvægi hans fyrir skoska fiskiskipaflotann.“
Haft er eftir Ian Gatt, framkvæmdastjóra Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, að síld og makríll sé gjarnan veidd samhliða og því telji samtök hans að refsiaðgerðirnar eigi einnig að ná til makrílveiða. Sama eigi að gilda um laxeldi þar sem fiskimjöl sem framleitt sé bæði úr makríl og síld sé notað til þess að fóðra eldislax. Ef slíkar aðgerðir skili ekki tilætluðum árangri innan skamms tíma ætti að útvíkka þær svo þær nái til allra sjávarafurða.