Skoðað verður í þessari viku hvort lagt verður fram frumvarp á sumarþingi um breytingar á sérstaka veiðigjaldinu, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
„Við ætlum að breyta strax sérstaka veiðigjaldinu. Við lofuðum því í kosningabaráttunni og við ætlum að standa við það, en það kemur auðvitað eitthvað annað í staðinn,“ sagði Sigurður Ingi. Hann minnti á að báðir stjórnarflokkarnir hefðu lýst því yfir að þeir vildu hafa hóflegt auðlindagjald af sjávarauðlindinni.
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir m.a. að lög um veiðigjald verði endurskoðuð. „Almennt gjald skal endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.“