„Ég varð ofsalega hrædd“

„Ég varð ofsalega hrædd,“ segir kona þegar hún lýsir því hvernig er að vera lamin í fyrsta skipti. Fyrrverandi eiginmaður hennar var dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart henni. Þrátt fyrir það hefur verið þrýst fast á hana að samþykkja sameiginlegt forræði. Hún segist ekki treysta honum, enda séu samskiptin ekki á jafnréttisgrundvelli eftir ofbeldið.

„Við kynntumst þegar við vorum saman úti að skemmta okkur, en ég bjó þá erlendis. Við urðum strax mjög ástfangin og vorum mikið saman. Ég sá fáa galla hjá honum til að byrja með. Vinkonur mínar og fjölskyldan töluðu um hvað hann væri skemmtilegur og heillandi maður.

Sambúðin gekk vel í fyrstu eftir að við giftum okkur. Ég var niðursokkin í námi og hann var í góðri vinnu. Þegar hann missti vinnuna fann ég að hann fór að verða þyngri í skapinu. Það fór líka að bera á afbrýðissemi. Hann gerði athugasemdir ef honum fannst ég vera í of þröngum fötum eða í of flegnum fötum. Ef ég fór að hitta vinkonur mínar þurfti ég að útskýra hvað við hefðum verið að gera. Það fór því að bera á stjórnsemi. Ég reyndi að geðjast honum til að forðast að hann færi í fýluköst sem gátu staðið yfir í marga daga. Ég brást við með því að passa að gera engin „mistök“. Einnig byrjuðu að koma brestir í sjálfstraustið mitt og stundum fór ég að efast um eigin dómgreind.“

„Andlega ofbeldið læðist að manni“

Hvenær áttaðir þú þig á því að hann væri farinn að beita þig andlegu ofbeldi?

„Þetta gerist allt mjög hægt og rólega og læðist einhvern veginn að manni. Það var ekki fyrr en vinkonur mínar bentu mér á að það væri ekki eðlilegt að maðurinn væri að hringja í mig sex sinnum á þremur klukkutímum meðan ég væri í heimsókn hjá þeim, að ég fer að velta því fyrir mér hvort ég sé lent í óeðlilegum aðstæðum. Fyrst fannst mér þessi tíðu símtöl bera vott um væntumþykju, að hann vildi vita að ég væri örugg. Hafa þarf í huga að við bjuggum erlendis þar sem ekki er sama öryggi og á Íslandi.

Hann fór að lýsa andstöðu við sumar vinkonur mínar sem hann vildi ekki að ég hefði samskipti við. Þetta voru þær vinkonur sem voru farnar að benda mér á að hann væri of stjórnsamur.

Þetta ofbeldi læðist að manni og eftir á hef ég stundum velt því fyrir mér hvenær það byrjaði en ég get ekki bent á neitt eitt atvik. Ég veit að þegar hann beitti mig líkamlegu ofbeldi í fyrsta skipti fór hann yfir strikið, en andlega ofbeldið er erfiðara að skilgreina.  Hann fór einnig að kalla mig niðrandi nöfnum þegar hann reiddist mér; kallaði mig heimska, sagði mér að halda kjafti, hélt yfir mér skammarpistla þar sem á endanum var allt mér að kenna. Hann tók enga ábyrgð á gjörðum sínum heldur kenndi mér um að gera hann svona reiðan. Svo sagði hann oft: „Sérðu hvað þú lætur mig gera?“

„Í fyrstu var ég „bara“ slegin utan undir“

Andlega ofbeldið jókst eftir að ég eignaðist börnin mín. Þá fór þetta virkilega að verða erfitt. Fýluköstin fóru að verða lengri og lengri.  Fyrsta skipti sem hann beitti mig líkamlegu ofbeldi var eftir að ég fór út að skemmta mér með vinkonu minni. Hann taldi að ég hefði komið of seint heim. Annað skiptið var það vegna þess að ég hafði gleymt að faxa fyrir hann mikilvægt bréf. Stundum vakti hann mig um miðjar nætur og hélt skammaræðu yfir mér og var ég þá oft illa sofin þegar ég þurfti að mæta í vinnu eða skóla. Eitt skipti henti hann öllum eigum mínum út því ég hafði eytt of miklum tíma með vinkonu minni, en kom svo með tárin í augunum út þegar ég ætlaði að fara. Þegar ég ætlaði að ljúka sambandinu sagði hann mér að hann væri hugsanlega með alvarlegan sjúkdóm.  Ég þurfti stundum að tilkynna mig veika í vinnu þegar hann neitaði að hugsa um börnin á mínum vinnutíma.

Þegar maður sér fyrir sér konur sem beittar eru líkamlegu ofbeldi, t.d. í bíómyndum, þá eru þær gjarnan handleggsbrotnar eða með glóðarauga. Ég var „bara“ slegin utan undir og það sást ekkert á mér. Ég vissi að hann mátti ekki gera þetta, en ég gat samt ekki tengt hann við þá mynd sem ég hafði af ofbeldismanni. Hann var góði maðurinn sem ég var ástfangin af. Ég spurði mig líka hvort það hefði verið eitthvað sem ég gerði sem gæti skýrt hegðun hans, því árin á undan hafði hann verulega verið brotið niður sjálftraust mitt.“

„Hann færði ábyrgðina á því sem gerðist á mig“

Hvernig leið þér eftir að hafa verið slegin?

„Ég varð ofsalega hrædd. Ég upplifði að heyra sjálfa mig öskra af djúpstæðum ótta eins eitthvað dýr sem verið er að pína. Það liðu síðan margir mánuðir þar til að hann gerði þetta aftur. Þá ýtti hann mér upp að vegg og reif í hárið á mér. Ég var alltaf mjög upptekin af því hvort það sæist á mér og fyrst það sáust ekki marblettir eða aðrir áverkar þá einhvern veginn lét ég þetta yfir mig ganga. Tíminn eftir að hann sleppti sér var líka yfirleitt góður tími, þá sýndi hann fyrst iðrun og reyndi að vera eins góður og hann gat. Keypti gjafir, eldaði fyrir mig og sinnti heimilinu mun meira en áður.

Á þessum tíma var ég að klára nám og fannst þá ekki rétti tíminn til að ljúka sambandinu. Síðan varð ég ófrísk og þá varð í smá tíma allt betra.

Hann tók líka fýluköst, þagði kannski í 3-4 daga og svo varð allt gott á milli. Hann átti til að gjósa svakalega, en svo varð allt gott í 4-5 mánuði á eftir. Hann varð miður sín þegar hann missti stjórn á sér. Hann baðst afsökunar og játaði að hann hefði misst stjórn á skapi sínu, en tók jafnframt fram að þetta væri að mestu leyti mér að kenna. Hann færði ábyrgðina á því sem gerðist á mig.“

„Hann tók mig kverkataki“

Rædduð þið aldrei um að hann ætti að leita sér hjálpar?

„Við fórum einu sinni til hjónabandsráðgjafa. Hann komst hins vegar fljótlega að þeirri niðurstöðu að ráðgjafinn væri á móti honum og neitaði að mæta aftur.

Það sem hélt mér á floti á þessum tíma var að ég vildi komast heim til Íslands. Við höfðum talað um að flytja til Íslands og okkur kom saman um að gefa okkur nokkur ár á Íslandi.

Okkur gekk vel til að byrja með eftir að við komum heim. Við fengum bæði góða vinnu, en síðan missti hann vinnuna og þá fór allt á verri veg. Ég fann að hann varð þunglyndur í hvert skipti sem hann varð atvinnulaus, en það gerðist fjórum sinnum meðan við bjuggum saman.“

Beitti hann þig líkamlegu ofbeldi hér heima?

„Já, alvarlegasta atvikið var þegar hann tók mig kverkataki. Þá sáust greinilegir marblettir á hálsinum. Þá brotnaði ég niður og fór til læknis og fékk áverkavottorð. Ég hafði líka samband við lögregluna. Mánuði síðar réðist hann aftur á mig og þá hringdi ég strax á lögregluna því ég var svo ofsalega hrædd.

Það þurfti mikinn kjark til að hringja á lögregluna og fara til læknis, en ég gerði það vegna þess að ég var hrædd. Ef ég hefði ekki gert það hefði hann aldrei verið dæmdur. Vitnisburðir fjölskyldu hafa lítið gildi í dómsmáli sem snýst um heimilisofbeldi; það þarf að leggja fram beinharðar sannanir.“

Dæmdur fyrir líkamlegt ofbeldi

Lagðir þú strax fram kæru hjá lögreglu?

„Nei, ég þorði það ekki. Ég óttaðist að hann yrði svo reiður. Barnavernd Reykjavíkur hringdi í mig eftir að ég leitaði til lögreglu í seinna skiptið því barnið mitt hafði verið á staðnum þegar maðurinn minn lagði á mig hendur. Ég man að ég sagði við starfsmanninn: „Þurfið þið nokkuð að segja honum frá því að ég hafi hringt á lögguna?“ Á þessum tíma treysti ég mér ekki til að takast á við viðbrögð hans.

Nokkrum vikum síðar sótti ég um skilnað. Ég var þá byrjuð í meðferð hjá hjúkrunarfræðingi á Miðstöð áfallahjálpar. Ég var búin að gera mér grein fyrir að ég væri ekki að gera börnunum mínum gott með því að bjóða þeim upp á þetta ástand.

Í kjölfarið lagði ég fram kæru á hendur manninum fyrir ofbeldi, en ákæran sem saksóknari gaf út byggði á skýrslum lögreglu og áverkavottorðum sem þá lágu fyrir. Hann var dæmdur, en fékk mildan dóm enda voru fyrir hendi mildandi aðstæður og þetta var hans fyrsta brot. Fyrir mér snérist þetta ekki um að hann fengi þungan dóm eða að ég fengi bætur. Ég varð bara að standa á mínum rétti og með minni sjálfsvirðingu. Ég vildi líka að ef hann beitti einhverjar aðrar konur ofbeldi og þær hringdu í lögregluna þá væru til upplýsingar hjá henni um að hann sé ofbeldismaður.“

Hvernig tók hann því þegar þú fórst fram á skilnað?

„Hann tók því illa, en hann bað mig líka afsökunar á því sem hann hafði gert mér. Á þessum tíma var hann auðvitað að vonast eftir að ég dragi kæruna til baka.“

Var aldrei drukkinn

Var hann einhvern tímann drukkinn þegar hann beitti þig líkamlegu ofbeldi?

„Nei, aldrei. Hann drekkur sjaldan áfengi og mjög lítið ef hann fær sér í glas. Á bak við ofbeldið liggur heldur engin vímuefnaneysla.“

Það er oft talað um að konur í þinni stöðu séu meðvirkar. Varstu meðvirk?

„Já, ég var það. Hann missti foreldri ungur og hafði orðið fyrir fleiri áföllum. Hann talaði oft um að allir hefðu yfirgefið sig og lét mig lofa sér því að yfirgefa sig aldrei. Ég átti auðvelt með að vorkenna honum. Ég er fórnfús manneskja og er iðulega tilbúin  til að hjálpa öðrum og gleymi oft að setja sjálfa mig í fyrsta sætið.“

Þrýstingur á að samþykkja sameiginlegt forræði

Hvernig gekk ykkur að koma ykkur saman um forræði eftir skilnaðinn?

„Illa. Ég fór fram á fullt forræði, en hann sætti sig ekki við það. Í málarekstrinum lagði lögfræðingur hans einu sinni að honum að samþykkja að ég fengi forræðið gegn því að ég samþykkti rýmri umgengni. Hann hafnaði því.

Við fengum  í hendur skýrslu frá sálfræðingi þar sem sagði að erfið samskipti foreldra væru greinilega farin að hafa áhrif á börnin okkar og að þau væru í áhættu með að fá kvíða eða þunglyndi. Það varð til þess að við fórum að tala saman um að reyna að bæta samskiptin. Í framhaldi af því kom lögfræðingur hans með þá tillögu að við reyndum sáttameðferð. Ég féllst á það, en ég var búin að gera upp við mig að ég gæti ekki samþykkt sameiginlegt forræði vegna þess að samskipti voru svo slæm. Ég er hrædd við hann og samskipti milli okkar eru og geta aldrei orðið á jafnréttisgrundvelli eftir ofbeldið. Það er líka svo mikið vantraust fyrir hendi. Ég treysti ekki því sem hann segir við mig. Hann á mjög auðvelt með að segja ósatt.

Ég og lögfræðingur minn vorum boðuð til sáttafundarins, en á honum voru fyrrverandi eiginmaður minn, lögfræðingur hans, sálfræðingur sem ég hafði ekki hitt áður og dómarinn. Fundurinn stóð í tvo tíma og þar var fast þrýst á mig að samþykkja sameiginlegt forræði. Dómarinn benti mér á að lagalega væri ekki stór munur á fullu forræði og því að vera með sameiginlegt forræði þegar lögheimili barnsins væri hjá mér. Mér var einnig bent á að sameiginlegt forræði væri það besta fyrir börnin. Enginn minntist hins vegar á að maðurinn minn fyrrverandi hefði verið dæmdur fyrir að beita mig líkamlegu ofbeldi. Ég hafnaði sameiginlegu forræði þrátt fyrir þennan þrýsting frá dómaranum og sálfræðingnum, en ítrekaði að ég væri tilbúin  til að samþykkja rýmri umgengni og ég lagði til að við færum í meðferð til að bæta samskiptin með hagsmuni barnanna í huga. Þá var mér bent á að fyrst ég vildi ekki samþykkja sameiginlegt forræði væri enginn grundvöllur fyrir sátt í málinu. Þrýstingurinn á fundinum var því allur á mér en ekki honum.“

„Óttaðist að eitthvað myndi bresta hjá honum“

Sálfræðingur hefur lagt mat á hæfni ykkar sem foreldra.

„Já, og við erum bæði metin mjög hæfir foreldrar. Hann kemur alltaf mjög vel fyrir og á auðvelt með að heilla fólk. Hann á sínar góðu hliðar. Í skýrslum segir að hann sé góður félagi barnsins og sé duglegur að leika við það, en ég sé meira stýrandi uppalandi.“

Hefur tíminn eftir skilnaðinn verið erfiður?

„Já, hann hefur verið mjög erfiður. Eftir að við skildum neitaði hann að fara af heimilinu svo ég þurfti að fara að heiman. Þegar hann svo fór neitaði hann að afhenda húslykilinn sem varð til þess að ég þorði ekki að sofa ein heima. Systkini mín skiptust á að gista hjá mér. Ég var svo hrædd um að hann myndi koma eina nóttina og vinna mér mein. Ég óttaðist að það myndi eitthvað bresta hjá honum og að hann myndi hreinlega drepa mig. Sjálfsagt var ótti minn kominn yfir alla skynsemi, en það er erfitt að stjórna hvernig manni líður, þegar ofbeldismunstrið hafði alltaf farið stigversnandi og varð sífellt alvarlegra.“

mbl.is