„Notaði mig eins og boxpúða“

„Þetta brýtur mann niður og eyðileggur fyrir manni heilu dagana,“ segir karlmaður sem var beittur andlegu ofbeldi í kjölfar skilnaðar. Konan hefur ítrekað hótað því að leyfa honum ekki sjá börnin þeirra tvö og hefur með ýmsum hætti reynt að stjórna lífi hans eftir að sambúðinni lauk.

Maðurinn segir að sambúð þeirra hafi ekki verið stormasöm. Konan hafi að vísu verið stjórnsöm og hlutirnir hafi alltaf þurft að vera eftir hennar höfði. Allt hafi hins vegar farið á verri veg eftir skilnaðinn. Hann tekur fram að það hafi verið sameiginleg niðurstaða þeirra að skilja eftir 12 ára samband. Það hafi reyndar tekið þau langan tíma að skilja, en þau hafi reynt að halda sambúðinni áfram vegna barnanna.

„Vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við“

„Eftir að hún frétti að ég væri byrjaður að hitta aðra konu fór hún að hóta því að ég fengi ekki að hitta börnin og að hún myndi taka af mér forræðið. Það samband fjaraði út í sandinn því ég fann að ég gæti ekki haldið því áfram með þessar hótanir á bakinu.

Ég hafði ekki orðið fyrir svona hótunum áður og vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við. Ég reyndi því að halda friðinn og gera það sem ég taldi að hún vildi. Þetta var auðvitað ekkert annað en andlegt ofbeldi.

2-3 árum eftir að við skildum kynntist ég konu og sambandið varð fljótlega alvarlegt, en þá tók fyrst steininn úr. Það má segja að hún hafi alveg tekið stjórnina á sambandinu í sínar hendur. Ég mátti ekki hitta nýju konuna ef ég var með börnin. Hótanirnar og svívirðingarnar voru þvílíkar að mér hætti að standa á sama. Ég þurfti að bakka og reyna að hegða mér í samræmi við hennar óskir. Þetta ástand fór ekki vel í þetta nýja samband. Kærastan átti erfitt með að sætta sig við að það væri einhver aðili út í bæ að stjórna lífi mínu. Ég treysti mér ekki til að standa fast á mínu og leyfði barnsmóður minni að stjórna því hvað ég mætti gera með börnunum og hvað ekki.“

„Mér var enginn akkur í því að henni liði illa“

Hvernig lýsa þessi reiðiköst sér?

„Þegar hún tekur köst verður hún algerlega stjórnlaus. Það skín eldur úr augunum á henni. Hún færir hins vegar ábyrgðina á hegðun sinni alltaf á mig og segir að ég dragi fram það versta í henni.

Það má segja að hún hafi notað mig eins og boxpúða fyrir eigin vanlíðan. Ef henni leið illa tók hún köst og hreytti í mig ónotum og hótaði mér. Inn á milli var hún voðalega aum og sagðist ekki vilja missa mig sem vin o.s.frv. Börnin eru hjá henni og mér er enginn akkur í því að henni liði illa. Ég er því alltaf að reyna að vera almennilegur við hana og reyna að halda sambandinu á góðum nótum.

Hún getur verið mjög ljúf og ég veit að margir sem þekkja hana eiga erfitt með að trúa því að hún eigi þessa hlið.“

Hann segir að hún hafi ekki fylgt hótunum sínum eftir um að leyfa honum ekki að hitta börnin, en hann segist hins vegar hafa verið búinn að undirbúa sig í huganum undir að svo kynni að fara.

„Samskiptin eru betri í dag enda eins lítil og hægt er. Snúast bara um það sem snýr að börnunum. Hef bara ekki áhuga á öðrum samskiptum við hana. Ég hef verið að reyna að koma mér út úr þessu fari og reyna að gleyma þessum erfiðu samskiptum. Um daginn var ég að leita að símanúmeri hjá félaga mínum og fletti yfir gömul sms-skilaboð og þá helltist þetta aftur yfir mig. Þá sá ég hvað þetta var í raun búið að vera slæmt.“

mbl.is