„Ég hef lengi talað fyrir því að meginlínan í þessu máli sé sú að flugvöllurinn sé áfram í Reykjavík. Það er í góðu samræmi við þann sáttmála sem ríkisstjórnin byggir á.“
Þetta segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag, spurð um afstöðu sína til staðsetningar Reykjavíkurflugvallar. Hún bendir á að meginverkefnið sé að tryggja það að flugvöllurinn verði áfram í nágrenni við helstu stofnanir og stjórnsýslu.
„Hvað varðar aðalskipulag Reykjavíkurborgar, sem hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið, þá liggja bara fyrir drög að því. Borgin hefur þetta skipulagsvald og þann tíma sem hún áskilur sér til að fara yfir þessi drög sem verða örugglega ekki lögð fram sem tillaga að aðalskipulagi fyrr en næsta haust,“ segir Hanna Birna og bætir við: „Mér sýnist hins vegar alveg einboðið miðað við hvernig þetta lítur út núna að það sé þörf á því að ríkið og Reykjavíkurborg ræði málið frekar.“