Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, er væntanleg hingað til lands í næstu viku og mun funda með Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegsráðherra, á fimmtudag.
Stjórnun makrílveiða verður til umræðu á fundinum. Á síðasta ráðsfundi sjávarútvegsráðherra ESB boðaði Damanaki að hún myndi við fyrstu hentugleika eiga fund með nýjum ráðherra sjávarútvegsmála á Íslandi til að kynnast viðhorfum hans.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að ESB hefur að svo stöddu hafnað þátttöku í trollleiðangri vísindamanna til að kanna stofnstærð og útbreiðslusvæði makríls.