„Grófari árásir og hótanir“

Um 100-110 leita að jafnaði árlega á slysa- og bráðadeild …
Um 100-110 leita að jafnaði árlega á slysa- og bráðadeild vegna heimilisofbeldis.

„Alvarleiki málanna hefur breyst. Það er meira um grófari árásir og hótanir,“ segir Eyrún B. Jónsdóttir deildarstjóri Neyðarmóttöku og Miðstöðvar áfallahjálpar á Landspítala, en um 100-110 leita að jafnaði árlega á slysa- og bráðadeild vegna heimilisofbeldis.

Eyrún segir að tölur spítalans um heimilisofbeldi segi ekki alla sögu því sumir sem leiti á slysadeild segi ekki rétt frá því sem gerðist. „Stundum hefur manneskjan verið beitt ofbeldi í talsverðan tíma áður en hún kemur á spítalann. Stundum er þrýstingur orðinn meiri á hana að gera eitthvað og svo getur verið að alvarleiki ofbeldisins hafi breyst. Áverkarnir geta verið orðnir sýnilegir, jafnvel þannig að manneskjan getur ekki mætt í vinnu eða skóla. Hún þarf þá að svara spurningum frá sínum nánustu vegna áverkanna.“

Yfir 100 koma á slysadeild vegna heimilisofbeldis

Eyrún segir að heilbrigðisstarfsfólk á slysa- og bráðasviði fylgi þeirri vinnureglu að ef grunur vaknar um heimilisofbeldi þá sé viðkomandi spurður beint hvort hann hafi verið beittur ofbeldi. „Þetta er auðvitað fyrst og fremst heilsufarsspurning. Þó að manneskjan neiti því að áverkanir séu til komnir vegna ofbeldis þá veit hún a.m.k. að heilbrigðisstarfsmann grunar að ekki sé samræmi á milli áverkans og frásagnar af því sem gerðist.“

Eyrún segir að skráðum heimilisofbeldismálum á slysa- og bráðadeild hafi ekki fjölgað á síðustu árum. Málin eru að jafnaði 100-110 á ári. Langflest málin varða ofbeldi gegn konum, en nokkrir karlar leita árlega á slysadeild vegna heimilisofbeldis. Á árunum 2006-2012 leituðu 7-20 karlar á ári til slysadeildar vegna ofbeldis maka eða fyrrverandi maka.

„Alvarleiki málanna hefur breyst. Það er meira um grófari árásir og hótanir. Það er oft þannig að manneskjan er elt á röndum með hótunum þó að hún sé að reyna að leita réttar síns. Hún er dauðhrædd við gerandann og hann leggur manneskjuna í einelti. Eineltið hefur versnað með öllum þessum nýju miðlum.“

„Jafnvel stórhættulegir menn“

Ef haft er í huga að rúmlega 100 leita að jafnaði á slysadeild vegna heimilisofbeldis á hverju ári verður að telja að tiltölulega fáar manneskjur fái vernd fyrir ofbeldinu með nálgunarbanni eða brottvísun ofbeldismanns af heimili. Nálgunarbönn hafa verið innan við 10 á ári og brottvísanir enn færri.

„Það er afskaplega sjaldan farið á nálgunarbann í þessum málum jafnvel þó að ofbeldið sé alvarlegt og gerendur jafnvel stórhættulegir,“ segir Eyrún. Hún segist telja að lögreglan eigi að láta oftar reyna á nálgunarbann. Þetta eigi að vera virkt úrræði. Hún viðurkennir að nálgunarbann leysi ekki öll mál og það geti stundum verið erfitt að fylgja því eftir.

Næstum helmingur allra morðmála á Íslandi tengist heimilisofbeldi

Eyrún segir mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn haldi vöku sinni í þessum málaflokki. Það eigi að vera stöðluð spurning að spyrja hvort viðkomandi hafi orðið fyrir ofbeldi. „Það eru alls kyns heilsufarsvandamál sem koma upp í kjölfar þessara mála. Menn þurfa að vera vakandi fyrir því að vandi sjúklingsins geti verið áfallaröskun vegna ofbeldis. Heimilisofbeldi getur haft alvarleg áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan fólks.“

Eyrún segir að búið sé að gera margt á liðnum árum til að fræða heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu og aðrar fagstéttir um ofbeldi í nánum samböndum. Það megi hins vegar gera betur. „Inngrip getur jafnvel bjargað lífi fólks. Mál af þessu tagi eru þess eðlis að grófleiki ofbeldisins hefur tilhneigingu til að aukast. Þetta er ekki bara spurning um að ein manneskja verði fyrir ofbeldi. Þetta hefur áhrif á börn og fjölskyldur. Oft hafa félagsleg tengsl verið rofin þannig að manneskja er orðin mjög ein með sinn vanda.“

Þegar Eyrún talar um að inngrip geti bjargað lífi fólks má minna á að samkvæmt upplýsingum frá Jóni H. B. Snorrasyni aðstoðarlögreglustjóra hjá  lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, megi rekja upp undir helming af öllum morðmálum á Íslandi síðustu áratugina til heimilisofbeldis.

Klínískar leiðbeiningar um ofbeldi í nánum samböndum

Í vetur gaf Landspítalinn út klínískar leiðbeiningarnar um ofbeldi í nánum samböndum. Páll Biering, dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, var formaður nefndar sem samdi leiðbeiningarnar. Hann segir að það sé ekki skylda starfsfólks spítalans að nota þær, en hann segist vonast eftir að þær verði notaðar sem víðast og að það verði hluti af rútínu starfsfólks í heilbrigðisgeiranum að spyrja um ofbeldi í nánum samböndum.

Páll segir að byrjað hafi verið að innleiða leiðbeiningarnar á kvennasviði, en það hafi líka gengið vel að innleiða þær í heilsugæslunni, en starfsfólk heilsugæslunnar hafi tekið þátt í að móta þær. Hann segir að löng hefð sé fyrir því á geðdeild að spyrja sjúklinga um heimilisofbeldi.

Starfsfólki er boðið að koma á námskeið til að læra að nota leiðbeiningarnar. Páll segir að það geti verið vandasamt að greina ofbeldi í nánum samböndum og því sé ekki sama hvernig er spurt.

Sjálfsagður hluti af mæðraeftirliti

Í leiðbeiningunum er að finna samantekt um hvaða úrræði eru í boði fyrir þá sem vilja leita sér hjálpar.

Páll segir að umræða þurfi að fara fram meðal heilbrigðisstarfsfólks um þessa hluti. Hann minnir á að fyrir um 20 árum hafi farið fram umræða meðal ljósmæðra um hvort ætti að spyrja verðandi mæður um áfengis- og vímuefnanotkun. Sumum hafi fundist slíkar spurningar of persónulegar, en í dag líti allir á þetta sem sjálfsagðan hlut í mæðraeftirliti.

Rannsóknir benda til að 15-16% Íslendinga búi að þeirri reynslu að hafa upplifað heimilisofbeldi, en innan við 2% séu í ofbeldissamböndum í dag. Páll segir þessar tölur sýna að þrátt fyrir allt takist flestum að komast út úr slíkum samböndum. Hann segir að fyrir heilbrigðisstarfsfólk sé mikilvægt að fá vitneskju um það ef fólk sem leitar til heilbrigðiskerfisins hafi reynslu af ofbeldi. Sú vitneskja geti hjálpað til við að greina orsök sjúkdóma og auðveldað bata.

Leiðbeiningarnar hafa ekki verið formlega innleiddar á slysa- og bráðadeild, en þar hefur verið unnið eftir leiðbeiningum um ofbeldi í nánum sambönum í nokkur ár. Í því felst að veita manneskjunni stuðning og vísa henni áfram í meðferð, t.d. í Áfallamiðstöðina eða í önnur úrræði utan spítalans. Eyrún segir að stór hluti tilkynninga sem barnaverndarnefndir fá um að börn hafi verið vitni að ofbeldi á heimili komi frá slysa- og bráðadeild.

„Heimilisofbeldi getur haft alvarleg áhrif á andlega, líkamlega og félagslega …
„Heimilisofbeldi getur haft alvarleg áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan fólks,“ segir Eyrún Jónsdóttir deildarstjóri Neyðarmóttöku og Miðstöðvar áfallahjálpar á Landspítala. mbl.is
Eyrún segir að þeir sem beiti ofbeldi í nánum samböndum …
Eyrún segir að þeir sem beiti ofbeldi í nánum samböndum séu stundum stórhættulegir menn. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is