„Þessi skýrsla færir okkur jákvæð tíðindi. Í ráðgjöfinni er aukning í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa og löngu, sem eru flestar af mikilvægustu botnfisktegundum okkar,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, um skýrslu um ástand fiskstofna og veiðiráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, tekur í sama streng og segir að í flestum tilvikum séu tillögur í samræmi við það sem búast hefði mátt við.
Ráðgjöfin er hækkuð í nokkrum verðmætustu botnfisktegundunum og íslenskri sumargotssíld og gæti útflutningsverðmæti aukist um 15-16 milljarða á næsta fiskveiðiári, skv. upplýsingum LÍÚ. Þorskafurðir gætu verið um helmingur af þeirri upphæð. Hins vegar er mikil óvissa um loðnuveiðar næsta vetur.