„Lét eins og þetta væri heimili hans“

„Það er ekki hægt að búa við ofbeldi án þess að bera skaða af – jafnvel varanlegan.“ Þetta segir kona, sem bjó í nokkur ár við heimilisofbeldi af hálfu mágs síns án þess að eiginmaður hennar kæmi henni til hjálpar. Hann bjó inni á heimili hennar og beitti hana og börn hennar andlegu ofbeldi.

Maður konunnar var sjómaður þegar þau hófu sambúð ung að árum. Þau bjuggu hjá foreldrum hans þar sem systkini mannsins bjuggu einnig. Maður hennar og eldri bróðir hans voru samrýmdir og voru samskipti þeirra þriggja mikil.

Varð fyrir misnotkun af hálfu bróðurins

Konan segir að eitt sinn þegar maður konunnar var á sjó hafi bróðir hans komið inn í herbergi til hennar í þeim tilgangi að misnota hana. Hún hafi ekki þorað að mótmæla honum af ótta við að vekja annað heimilisfólk. Þetta endurtók sig. Konan segist ekki hafa þorað að segja frá þessum atvikum og lokaði þau inni. Hún óttaðist að enginn myndi trúa sér, sérstaklega vegna hins sterka sambands milli bræðranna.

Konan segir að eiginmaður konunnar hafi alla tíð verið fremur afskiptalaus um heimilið og fjölskylduna. Að nokkru leyti megi skýra það með því að hann vann nánast alla tíð fjarri heimilinu. Konan var því mikið ein með börnin og hún segir að mágur sinn hafi notfært sér það. Mágur hennar bauð fram aðstoð í smáu sem stóru og þáði hún hana vegna þrýstings frá eiginmanninum. Hún segir að bróðirinn hafi sem sagt notaði þá aðferð að gera sig ómissandi. Enginn í fjölskyldum hjónanna hafi séð í gegn um þetta og töldu hann einungis vera að hjálpa konunni og börnunum.

Maðurinn fékk starf erlendis, í landi þar sem stríðsástand ríkti, og á nokkurra ára tímabili bjuggu þau í fjórum slíkum löndum. Konan segir að bróðirinn hafi gert  sér far um að heimsækja fjölskylduna oft og hafi dvalið langdvölum hjá þeim. Hún segir að hann hafi viðhaft kynferðislega áreitni gagnvart sér, gert lítið úr sér og sýnt henni yfirgang. Þeir bræður höfðu oft áfengi um hönd og hún segir að þeir hafi þá báðir sýnt yfirgang og niðrandi framkomu.

Eftir nokkurra ára veru erlendis ákvað konan að snúa heim vegna þess að hjónabandið var orðið henni og börnunum óbærilegt auk þess sem sonur þeirra átti í erfiðleikum í skólanum. Taldi hún betra fyrir hann að komast heim. Eiginmaður hennar hélt hins vegar áfram að vera úti.

Bróðirinn hélt áfram að búa í húsinu

„Bróðir hans dvaldi í húsinu okkar meðan við vorum úti og þegar ég sneri aftur heim hélt hann áfram að búa þar,“ segir konan. „Maðurinn minn hafði tekið ákvörðun um það ásamt bróður sínum og hafði ég ekkert um það að segja og þorði ekki að beita mér gegn þeim. Upphaflega hélt ég að þetta yrði bara í skamman tíma en bróðirinn hélt áfram því framferði sem áður er lýst gagnvart mér og börnunum og færðist það verulega í aukana auk þess sem áfengisneysla hans jókst. Kynferðisleg áreitni varð tíðara gagnvart mér, nærgöngulla og útsmognara. Alls kyns ásakanir urðu einnig tíðari s.s. ásakanir um að ég héldi fram hjá manninum mínum, vanrækti börnin, auk þess sem hann var ofan í öllu sem ég gerði, einungis til að gera lítið úr mér. Það gerði hann hiklaust svo að börnin heyrðu og hafði það mikil áhrif á þau og samskipti mín við þau.“

„Ég sé það í dag að á þessum tíma var ég orðin mjög sinnulaus og veruleikafirrt. Ég gerði mér ekki grein fyrir þeim skaða sem þetta hafði á mig og börnin og var í stöðugum ótta við að missa þau frá mér. Maðurinn minn hafði oft gefið í skyn að ég myndi aldrei spjara mig ein með börnin. Það var einnig eitt af stjórntækjum bróður hans gagnvart mér og börnunum. Honum hafði tekist að gera sig „ómissandi“ og hafði náð að lita huga barnanna að einhverju leyti, m.a. með því að gera með þeim hluti sem þeim þóttu skemmtilegir. Hann var mikið með börnunum í tómstundum og fleiru og reyndi síðar markvisst að nota þessi tengsl til að stjórna fjölskyldunni. Hann gaf þeim sælgæti þegar þau áttu ekki að fá sælgæti, leigði videospólur í tíma og ótíma o.s.frv.,“  segir konan og bætir við að hann hafi unnið gegn sér og hlutverki sínu sem foreldris.

„Skammaðist mín fyrir ástandið“

„Ég reyndi að leyna þessu ástandi fyrir fjölskyldu minni og lokaði mig frá henni. Ef fjölskyldumeðlimir reyndu að nálgast mig til að ræða þetta ástand þá vísaði ég umræðuefninu fimlega frá mér. Bæði vegna þess að skammaðist mín fyrir ástandið og óttaðist að ef umræðan opnaðist þá gæti ég átt það á hættu að missa börnin frá mér.“

Konan segir að bróðirinn hafi haldið áfram að áreita sig kynferðislega. Framkoma hans hafi verið sóðalegt og orðfæri sömuleiðis. Hún segir að hann hafi snuðrað í svefnherbergi þeirra hjóna og farið höndum um persónulegar eigur þeirra, s.s. bréf og aðra muni. Lítill munur hafi verið á framferði hans hvort sem hann var drukkinn eða ódrukkinn. „Hann kastaði m.a. þvagi á svefnherbergisgluggann minn, hengdi nærföt af sér á hurðarhún svefnherbergis míns og gekk um húsið og garðinn um nætur. Þetta háttalag hans var mjög ógnandi,“ segir konan.

Sambúðin við bróðurinn óbærileg

Konan fór út aftur til eiginmanns síns, en varð fljótlega ljóst að vandi hjónabandsins var enn óleystur og börnum þeirra leið ekki vel í skólanum þar. Hún sagðist hafa rætt við manninn sinn um að sambúðin við bróðurinn væri henni og börnunum óbærileg og að hún kærði sig ekki um að hann byggi hjá þeim. Hann tók ekki afstöðu með konunni, málið féll um sjálft sig og bróðirinn hélt áfram að búa á heimilinu.  

Konan segir að eiginmaður hennar hafði átt það til í gegn um tíðina að taka reiðiköst, steyta hnefann og henda hlutum til ef honum mislíkaði eitthvað. Hún hafi því ekki getað treyst honum til að taka rétt á málum enda hafi þeir bræður verið mjög samrýmdir. Að lokum fór hún aftur heim til Íslands og flutti þá aftur inn á heimilið þar sem bróðirinn hafði komið sér enn betur fyrir.

Konan hafði á sínum yngri árum gengið til liðs við trúarsöfnuð og í kjölfarið gekk bróðirinn líka í söfnuðinn. Hún segir að hann hafi notað þennan trúaráhuga til að reyna að bindast henni fastari böndum. „Eftir að ég kom aftur heim var hann farinn að drekka meira. Hann hélt áfram að stjórna öllu á heimilinu, bæði gagnvart mér og börnunum og var trúarofstæki hans orðið yfirþyrmandi. Ef ég bað hann um að fara þá varð hann mjög aumur og grét. Hann var búinn snúa hlutunum algerlega á haus og lét eins og þetta væri heimili hans, en húsið var í eigu okkar hjóna. Hann átti að vísu íbúð sjálfur, en hún var í útleigu. Ég var orðin mjög hrædd.“

Flúði í Kvennaathvarfið

,,Eftir eina vökunóttina þar sem hann hafði sýnt sóðalegt og ógnandi framferði fékk ég endanlega nóg og fékk viðtal hjá Kvennaathvarfinu. Ráðgjafi minn hvatti mig til að ræða við einhvern sem ég treysti og koma manninum út úr húsinu sem fyrst. Ég var hætt að borða og skalf af hræðslu. Þetta var mjög erfiður tími.“

Nokkrum mánuðum síðar kom eiginmaður konunnar heim í frí. Hún sagði honum þá eins nákvæmlega og henni var unnt frá ástandinu. Um það leyti ákváðu hjónin að skilja. Konan segir að bróðirinn hafi tekið skilnaðinum afar illa og í kjölfarið flúðu konan, maður hennar og börnin af heimilinu.

„Þegar maðurinn minn var búinn með fríið fór hann aftur út án þess að búið væri að koma bróður hans út úr húsinu. Ég gat ekki hugsað mér að fara inn á heimilið aftur þar sem hann bjó. Mér tókst hins vegar með stuðningi fjölskyldu minnar að koma honum út.“

Í kjölfarið fór konan að vinna úr þessari lífsreynslu með aðstoð Stígamóta og sálfræðings. Hún sagði að hún hefði á þessum tíma verið í mjög slæmu ástandi og í raun aldrei haft styrk til að standa með sjálfri sér.

Mikið símaónæði

„Eftir að hann flutti út hófst stöðugt áreiti símleiðis. Fyrsta daginn eftir að hann fór hringdi hann margoft í son minn. Hann hringdi líka stöðugt í mig, ekki síst þegar hann var fullur. Fyrstu jólin eftir að hann flutti voru sérstaklega ónæðissöm vegna áreitis frá honum símleiðis.“

„Það var ekki fyrr ef eftir að ég fékk aðstoð lögreglunnar, ári síðar, sem hann hætti að ónáða okkur á þennan hátt. Þar sem hann er fjölskyldumeðlimur barna minna er erfiðara að útiloka þessa reynslu.“

Konan sagði að þessi lífsreynsla hefði reynt mikið á sig og börn sín. Hún hefði alltaf reynt að leysa málin með góðu en án árangurs.

mbl.is