Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi VG í utanríkismálanefnd Alþingis, óskaði eftir því á fundi nefndarinnar í morgun að sjávarútvegsráðherra kæmi á fund nefndarinnar til að ræða stöðuna í makríldeilunni.
„Óskin er m.a. sett fram í ljósi þess að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, lét í ljósi þá skoðun á fundi sínum með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrr í þessum mánuði að samningar um makrílveiðar Íslendinga yrðu að takast sem fyrst. Það eru einkum Skotar sem knýja á um aðgerðir ESB gegn makrílveiðum Íslendinga og Færeyinga, sem þeir telja að leiði til ofveiði á makríl, og krefjast þess að málinu verði ráðið til lykta hið fyrsta,“ segir í tilkynningu frá þingflokki VG.