Evrópusambandið vill að samningaviðræður um makríldeiluna hefjist í sumar. Of seint sé að hefja viðræður í haust eins og íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á. Þetta er haft eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.
Fram kemur í fréttinni að Íslendingar verði að semja hratt um lausn málsins. Að öðrum kosti standi þeir frammi fyrir refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins að sögn Damanakis. Rætt er við sjávarútvegsstjórann í tengslum við heimsókn hennar til Íslands á dögunum þar sem hún ræddi um málið við Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Henni hafi verið tjáð að íslensk stjórnvöld vildu bíða þar tl í október með að hefja samningaviðræður á ný. Haft er eftir Damanaki að það væri of seint og að samningsafstaða Íslands þyrfti að liggja fyrir innan nokkurra vikna.
Sigurður Ingi segist í samtali við fréttavef Ríkisútvarpsins í kvöld vona að ummæli Damanakis séu til heimabrúks. Þær refsiaðgerðir sem hún vísi til séu ólöglegar að hans mati og hótanir um að beita þeim ekki til þess að bæta samskiptin við Evrópusambandið. Hann hafi verið í samskiptum við Damanaki eftir fund þeirra um það hvernig hugsanlega væri hægt að hefja viðræður á ný um lausn deilunnar.