Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði grein fyrir viðræðum sínum við Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, og öðrum viðræðum sem hafa átt sér stað vegna stöðu mála, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær, að sögn Birgis Ármannssonar, formanns nefndarinnar.
„Um var að ræða samráðsfund utanríkismálanefndar með sjávarútvegsráðherra út af makríldeilunni, enda er gert ráð fyrir því að nefndin eigi samráð við stjórnvöld í stefnumörkun í mikilvægum utanríkismálum,“ segir Birgir um fundinn.
Þá bendir hann á að innan nefndarinnar sé að sjálfsögðu stuðningur við að áfram verði haldið viðræðum við aðrar þjóðir sem hagsmuni hafa af makrílveiðum í Atlantshafi. „Það er mikilvægt að samkomulag náist um veiðar úr þessum stofni. Um leið leggjum við þunga áherslu á að stjórnvöld standi fast vörð um hagsmuni Íslendinga í málinu,“ segir Birgir.
„Ráðherrann fór yfir stöðuna í málinu og í raun og veru kom fram að núverandi stjórnvöld fylgja sömu línu í þessu máli og fylgt hefur verið af hálfu Íslands að undanförnu, þannig að það er í sjálfu sér engin breyting þar á,“ segir Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi VG í nefndinni, um fundinn.