Heildartekjur ríkisins vegna veiðigjalda á árunum 2008 til 2012 nema nærri 17 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Er þá miðað við reikningsár.
Umtalsverð aukning hefur orðið í tekjum ríkisins af veiðigjöldum á síðustu árum. Þannig námu tekjur ríkisins af almenna veiðigjaldinu rétt rúmum 180 milljónum króna reikningsárið 2008 en árið 2012 námu þær tæpum 4,7 milljörðum króna. Þá námu tekjur ríkisins af sérstaka veiðigjaldinu tæpum 7,5 milljörðum í fyrra, frá því dregst þó tæplega 2,4 milljarða afsláttur sem veittur var af gjaldinu.
Álagt almennt veiðigjald á núverandi fiskveiðiári (1. sept. 2012 - 31. ágúst 2013) nemur 3,7 milljörðum króna. Álagt sérstakt veiðigjald nemur hinsvegar 9,7 milljörðum á fiskveiðiárinu, en afsláttur af því er 2,7 milljarðar króna.
Enn á þó eftir að leggja á og innheimta bæði almennt og sérstakt veiðigjald af afla í þeim fiskitegundum sem eru utan kvótakerfisins, líkt og t.d. makríl, sem og afla utan kvóta (t.d. strandveiðiafla). Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu verður þetta gert í haust.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir nefndina funda um veiðigjaldafrumvarpið í dag og eftir helgina. Umsagnafresti lýkur á mánudag en nefndin er byrjuð að taka á móti gestum vegna málsins. Aðstandendur undirskriftasöfnunar gegn frumvarpinu koma á fund nefndarinnar í dag og fund einnig með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra.