Ellefu langreyðar eru komnar á land

Gert að langreyði í Hvalfirði.
Gert að langreyði í Hvalfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Fjór­um langreyðum var landað í Hval­stöðinni í Hval­f­irði í gær. Hval­ur 9 kom fyrst að landi um tíu­leytið í gær­morg­un með tvo hvali og svo kom Hval­ur 8 með aðra tvo á fjórða tím­an­um í gær. Alls var búið að landa ell­efu langreyðum í gær­kvöldi frá því að hval­veiðivertíðin hófst viku fyrr.

„Þetta er þrusu­gang­ur. Það er frá­bær stemn­ing hér í Hval­stöðinni, ekk­ert verri en í gamla daga,“ sagði Gunn­laug­ur F. Gunn­laugs­son stöðvar­stjóri í gær. „Þetta er alltaf sama til­finn­ing­in.“ Hann sagði að hval­irn­ir sem komið var með í gær hefðu verið mjög góðir.

Unnið nótt og dag

Í Hval­stöðinni vinna 90 manns á átta stunda vökt­um við hvalsk­urðinn. Stór hluti af þeim er skóla­fólk en einnig reynd­ir hvalsk­urðar­menn sem mæta þegar hval­veiðar eru stundaðar.

„Við erum með mikið af fólki sem hef­ur verið hér áður. Það kem­ur alltaf aft­ur og aft­ur,“ sagði Gunn­laug­ur í sam­tali við Morg­un­blaðið. 

Til stóð að vinna í alla nótt við að ganga frá hvöl­un­um sem landað var í gær og end­ist vinn­an við þá all­an dag­inn í dag einnig, að sögn Gunn­laugs. Kjöt, rengi, spik og sporðar fara í fryst­ingu. Bein­in eru söguð niður og soðið úr þeim lýsi og síðan búið til mjöl úr þeim, inn­yfl­um og af­sk­urði í Hval­stöðinni. Aðal-fryst­ing­in er í Hval­stöðinni en einnig vinna 30 manns við fryst­ingu hvala­af­urða á Akra­nesi og 15 í Hafnar­f­irði. Auk þess eru 26 manns í áhöfn­um hval­bát­anna tveggja, 13 á hvor­um báti. Alls hafa því 161 vinnu við hval­veiðarn­ar í sum­ar að ótöld­um þjón­ustu­störf­um við hval­veiðarn­ar. Full­ráðið er hjá Hval hf., að sögn Gunn­laugs.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: