Forsendur refsiaðgerða fyrir hendi

Evrópuþingmaðurinn Pat
Evrópuþingmaðurinn Pat "the Cope" Gallagher. mbl.is/Styrmir Kári

„Þegar við rædd­um síðast við Dam­anaki í Evr­ópuþing­inu sagði hún að ný rík­is­stjórn hefði tekið við völd­um á Íslandi og vildi fá tæki­færi til þess að ræða við hana. Í kjöl­farið myndi hún síðan taka ákvörðun um aðgerðir í mak­ríl­deil­unni,“ sagði Pat "the Cope" Gallag­her, þingmaður á Evr­ópuþing­inu, í sam­tali við mbl.is spurður út í stöðuna í mak­ríl­deil­unni en hann er stadd­ur hér á landi vegna fund­ar sam­eig­in­legr­ar þing­manna­nefnd­ar Alþing­is og Evr­ópuþings­ins vegna um­sókn­ar­inn­ar um inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið.

Evr­ópu­sam­bandið samþykkti lög­gjöf síðastliðið haust sem veit­ir fram­kvæmda­stjórn þess heim­ild til þess að grípa til refsiaðgerða gegn ríkj­um sem hún tel­ur að stundi of­veiði á fiski­stofn­um sem þau deila með sam­band­inu. Gallag­her og fleiri stjórn­mála­menn og hags­munaaðilar inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þrýst mjög á Mariu Dam­anaki, sjáv­ar­út­vegs­stjóra sam­bands­ins, að nýta þessa heim­ild og grípa til refsiaðgerða gegn Íslandi og Fær­eyj­um en hún hef­ur meðal ann­ars sagt að verið væri að skoða laga­leg­ar hliðar slíkra aðgerða.

Dam­anaki hef­ur lagt áherslu á að viðræður um lausn mak­ríl­deil­unn­ar hæf­ust aft­ur í sum­ar en ís­lensk stjórn­völd hafa hins veg­ar horft til næsta hausts í þeim efn­um. Gallag­her seg­ist skilja vel þá af­stöðu Íslands. „Ég skil það vel. Ef ég væri Íslend­ing­ur myndi ég segja það sama því það þýðir að of­veiði allra aðila máls­ins held­ur áfram í annað ár. En þá færðist staðan líka nær þeim tíma­punkti þegar við verðum að grípa til rót­tækra aðgerða til þess að standa vörð um mak­ríl­inn. Þannig að ég vona að viðræður hefj­ist á ný frek­ar fyrr en síðar.“

Gallag­her seg­ist aðspurður telja að mak­ríl­deil­an sé þegar orðin það al­var­leg að staðan upp­fylli for­send­ur þess að gripið sé til refsiaðgerða. Evr­ópu­sam­bandið hafi nú þegar í hyggju að beita slík­um aðgerðum gegn Fær­ey­ing­um vegna ein­hliða kvóta­út­hlut­un­ar þeirra í norsk-ís­lenskri síld. Því ætti for­send­urn­ar að vera líka til staðar varðandi mak­ríl­inn. „En ég vona að það þurfi ekki að koma til þess og eina leiðin til þess að leysa þetta er að aðilar máls­ins komi sam­an og finni viðun­andi lausn.“

mbl.is