„Þegar við ræddum síðast við Damanaki í Evrópuþinginu sagði hún að ný ríkisstjórn hefði tekið við völdum á Íslandi og vildi fá tækifæri til þess að ræða við hana. Í kjölfarið myndi hún síðan taka ákvörðun um aðgerðir í makríldeilunni,“ sagði Pat "the Cope" Gallagher, þingmaður á Evrópuþinginu, í samtali við mbl.is spurður út í stöðuna í makríldeilunni en hann er staddur hér á landi vegna fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins vegna umsóknarinnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Evrópusambandið samþykkti löggjöf síðastliðið haust sem veitir framkvæmdastjórn þess heimild til þess að grípa til refsiaðgerða gegn ríkjum sem hún telur að stundi ofveiði á fiskistofnum sem þau deila með sambandinu. Gallagher og fleiri stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar innan Evrópusambandsins hafa þrýst mjög á Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra sambandsins, að nýta þessa heimild og grípa til refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum en hún hefur meðal annars sagt að verið væri að skoða lagalegar hliðar slíkra aðgerða.
Damanaki hefur lagt áherslu á að viðræður um lausn makríldeilunnar hæfust aftur í sumar en íslensk stjórnvöld hafa hins vegar horft til næsta hausts í þeim efnum. Gallagher segist skilja vel þá afstöðu Íslands. „Ég skil það vel. Ef ég væri Íslendingur myndi ég segja það sama því það þýðir að ofveiði allra aðila málsins heldur áfram í annað ár. En þá færðist staðan líka nær þeim tímapunkti þegar við verðum að grípa til róttækra aðgerða til þess að standa vörð um makrílinn. Þannig að ég vona að viðræður hefjist á ný frekar fyrr en síðar.“
Gallagher segist aðspurður telja að makríldeilan sé þegar orðin það alvarleg að staðan uppfylli forsendur þess að gripið sé til refsiaðgerða. Evrópusambandið hafi nú þegar í hyggju að beita slíkum aðgerðum gegn Færeyingum vegna einhliða kvótaúthlutunar þeirra í norsk-íslenskri síld. Því ætti forsendurnar að vera líka til staðar varðandi makrílinn. „En ég vona að það þurfi ekki að koma til þess og eina leiðin til þess að leysa þetta er að aðilar málsins komi saman og finni viðunandi lausn.“