Við könnun á hrygningu makríls í síðasta mánuði fundust makrílegg í meira mæli í íslenskri lögsögu en í sambærilegum leiðangri fyrir þremur árum.
Hrygningar varð vart suður af Vestmannaeyjum og egg fundust vestar og norðar en áður, samkvæmt upplýsingum Björns Gunnarssonar leiðangursstjóra.
Endanlegar niðurstöður eiga að liggja fyrir í september, en um fjölþjóðlegt verkefni er að ræða. Ætisgöngur makríls hafa síðustu ár aukist mjög norðar og vestar og ekki er talið ósennilegt að einnig sé um að ræða sams konar tilfærslu á hrygningarsvæði makríls, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar rannsóknir í Morgunblaðinu í dag.