Tæplega helmingur Breta er jákvæður fyrir því að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu, eða 48%, á meðan 24% eru neikvæð gagnvart því. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov gerði og birti í gær. Mikill meirihluti kjósenda fjögurra stærstu stjórnmálaflokka Bretlands er hlynntur aðild Íslands nema Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP).
Mestur stuðningur var við aðild Íslands að ESB af þeim ríkjum sem spurt var um í könnuninni en næst í röðinni var Króatía með 37% en Króatar urðu formlega aðilar að sambandinu 1. júlí síðastliðinn. Þriðjungur, eða 33%, er hins vegar andvígur aðild þeirra. Einungis í tilfelli Íslands og Króatíu eru fleiri jákvæðir fyrir aðild ríkjanna en neikvæðir.
Ríkin sem spurt var um eru auk Íslands og Króatíu: Rússland, Serbía, Tyrkland, Úkraína, Albanía, Kasakstan, Marokkó og Ísrael. Minnstur stuðningur er við aðild Kasakstans eða aðeins 12%. 56% eru hins vegar andvíg aðild þess. Þá eru aðeins 15% hlynnt aðild Marokkós en 57% andvíg.
Skoðanakönnunin var gerð dagana 1. og 2. júlí og var úrtakið 1.758 manns. Könnunina í heild má nálgast hér.