Hæstiréttur Indlands gagnrýndi í dag ríkisstjórn landsins fyrir að bregðast kröfum um að gripið verði til aðgerða til að draga úr tíðni sýruárása á konur. Á hverju ári eru tilkynntar um 1.500 sýruárásir, en árásarmennirnir eru oftar en ekki heiftúðugir kærastar eða vonbiðlar.
Dómarar hæstaréttar hafa kallað eftir því að ríkisstjórnin taki til skoðunar hvort rétt væri að setja reglugerð um sölu sýru sem notuð er í hatursglæpum gegn konum. Afleiðingar slíkra sýruárása geta verið gríðarlega alvarlegar og leitt til varanlegrar fötlunar og afskræmingar eða jafnvel dauða.
Seld sem ryðhreinsir
„Hér deyja stúlkur á hverjum degi og hvorki alríkisstjórnin né héraðsstjórnir taka málið alvarlega,“ segir í yfirlýsingu frá tveimur dómurum hæstaréttar í dag, R.M. Lodha og S.J. Mukhopadhaya.
Dómararnir fara fram á það að ríkisstjórn Indlands bregðist við fyrir 16. júlí, bæði með því að setja sér markmið um að berjast gegn sýruárásum en einnig með því að koma á fót stuðningi og aðstoð við fórnarlömb slíkra árása.
Sýra að nafni „tezaab“ sem ætluð er til að hreinsa ryð af verkfærum er algengasta vopnið í sýruárásum, sem mannréttindasamtök í Indlandi segja að fari fjölgandi.
Vitundarvakning í Indlandi
Hópnauðgunin á ungri stúdínu sem lést í kjölfarið í Nýju Delhi í desember vakti marga til vitundar um hatursglæpi gegn konum í Indlandi. Í kjölfarið samþykkti þjóðþing landsins að herða lög til verndar konum, þar á meðal með því að lengja refsirammann vegna hópnauðgunar upp í 20 ár.
Þingmenn höfnuðu hins vegar tillögu um herta refsingu fyrir sýruárásir. Viðurlög við slíku ofbeldisverki er 8-12 ára fangelsisdómur eftir því hve alvarleg meiðslin eru.
Frásögn indversku stúlkunnar Sonali Mukherjee: „Vildi hvorki deyja svona né lifa svona“