Segjast hafa hindrað flutning á hvalkjöti

Höfnin í Hamborg í Þýskalandi.
Höfnin í Hamborg í Þýskalandi. Wikipedia/Slader

Grænfriðung­ar komu í veg fyr­ir að sex gám­ar af hval­kjöti yrðu flutt­ir um borð í flutn­inga­skip í Ham­borg í Þýskalandi í gær og þaðan til Jap­ans. Þetta kem­ur fram á frétta­vefn­um Soft­pedia.com í dag. Gám­arn­ir höfðu áður verið flutt­ir í land í þýsku hafn­ar­borg­inni úr flutn­inga­skip­inu Cosco Pri­de vegna þess að skrán­ing­ar­upp­lýs­ing­ar virt­ust ekki full­nægj­andi sam­kvæmt frétt­um Rík­is­út­varps­ins.

Sam­skip fluttu hval­kjötið til Rotter­dam í Hollandi þar sem því var um­skipað í Cosco Pri­de. Snurðulaust gekk að um­skipa hval­kjöt­inu þar en þegar til Ham­borg­ar var komið kröfðust toll­verðir þess að gám­arn­ir yrðu flutt­ir í land þar til farið hefði verið yfir skjöl sem fylgdu þeim. Í millitíðinni hélt Cosco Pri­de áfram ferð sinni án kjöts­ins.

Eft­ir að gefið hafði verið grænt ljós á flutn­ing hval­kjöts­ins um Ham­borg stóð til að koma því um borð í annað flutn­inga­skip en Grænfriðung­ar gripu þá meðal ann­ars til þeirra aðgerða að tjóðra sig við land­fest­ar þess. Varð úr að skipið hélt úr höfn án þess að hafa gám­ana sex með hval­kjöt­inu um borð. Fram kem­ur á heimasíðu Grænfriðunga að vænt­an­lega hafi flutn­inga­fyr­ir­tækið ekki nennt að standa í því að eiga við þá.

Gám­arn­ir eru á leið aft­ur til Rotter­dam sam­kvæmt frétt Rík­is­út­varps­ins og þaðan er bú­ist við að þeir fari aft­ur til Íslands. Ekki er þó víst að flutn­ing­ur hval­kjöts­ins gangi jafn snurðulaust fyr­ir sig í Rotter­dam að þessu sinni eins og síðast vegna and­stöðu stjórn­valda við flutn­ing slíks kjöts um hol­lensk­ar hafn­ir.

mbl.is