Strandveiðar í júlí verða stöðvaðar á svæði A, frá Eyja- og Miklholtshreppi til Súðavíkurhrepps, frá morgundeginum 12. júlí. Síðasti veiðidagur mánaðarins er því í dag.
Hægar hefur gengið að ná strandveiðiaflanum á öðrum svæðum. Ónotaðar heimildir í hverjum mánuði flytjast á milli mánaða allt til loka strandveiðitímans í ágústlok.
Búið var að veiða 91% af leyfðum afla á svæði A þriðjudaginn 9. júlí frá því að strandveiðarnar hófust í maí. Á því svæði eru 248 bátar með strandveiðileyfi og höfðu allir landað afla nema einn. Heildaraflinn var orðin 2.215 tonn og meðalafli í róðri var 558 kg, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.
Á svæði B var búið að nýta 76% aflaheimilda frá maí til júlí, á svæði C 46%, og á svæði D 75%.