Sex karlmenn sem voru ákærðir fyrir að nauðga og ræna 29 ára svissneska hjólreiðakonu í fríi á Indlandi, voru í dag dæmdir í lífstíðarfangelsi. Málið fékk flýtimeðferð fyrir indverskum dómstólum.
„Allir hinir ákærðu voru fundnir sekir og við erum ánægð með dóminn,“ sagði saksóknarinn í málinu, Rajendra Tiwari, eftir uppkvaðningu dómsins í dag.
Svissnesku konunni var nauðgað þremur mánuðum eftir að 23 ára indversk kona hlaut grimmilega meðferð í strætisvagni í Delí í desember. Mikil reiði blossaði upp um allan heim vegna þess máls og hefur verið þrýst mjög á indversk stjórnvöld að bæta meðferð kynferðisbrotamála í landinu.
Mennirnir sex sem dæmdir voru í dag voru færðir í gæsluvarðhald skömmu eftir að nauðgunin átti sér stað um miðjan mars. Mennirnir nauðguðu konunni í skóglendi í Datia í héraðinu Madhya Pradesh í miðhluta Indlands. Þar var konan í útilegu með eiginmanni sínum.
Eiginmaður hennar var bundinn á meðan mennirnir nauðguðu konunni. Hjónin voru á hjólreiðaferðalagi um Indland.
Aðeins fjórir mannanna voru þó dæmdir fyrir nauðgunina en allir sex fengu þeir dóm fyrir árás og rán.
Fimm mannanna eru bændur á þrítugsaldri en sá sjötti er aðeins 19 ára.
Indverska þingið hefur nú þyngt refsingu við nauðgunum.