„Ég fór oft til læknis með glóðarauga

Konan segir að maðurinn hafi beitt börn þeirra andlegu og …
Konan segir að maðurinn hafi beitt börn þeirra andlegu og líkamlegu ofbeldi. mbl.is/G.Rúnar

„Hann varð alveg brjálaður. Ég passaði mig bara að verða ekki á vegi hans.“ Þetta segir kona um viðbrögð eiginmanns hennar þegar hún, fyrir einu og hálfu ári, fór fram á skilnað við hann eftir að hafa búið með honum í tæplega 40 ár. Maðurinn beitti hana og börn þeirra andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Maðurinn á við alvarlegt áfengisvandamál að stríða og það hefur litað sambúðina alla tíð. Hann hefur líka misnotað pillur. Konan kemur frá heimili þar sem lítið var um áfengi og hún hafði því aldrei upplifað áfengi sem vandamál þegar hún hóf ung sambúð við manninn. Hún segir að mjög snemma í sambúðinni hafi hann verið farinn að beita andlegu ofbeldi. „Þegar ég hugsa til baka finnst mér eins og það hafi alltaf verið einhver geðveila hjá honum. Hann beitti mig andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Sumu af því sem hann gerði á hlut minn gerði ég mér ekki grein fyrir fyrr en löngu seinna þegar ég fór til lögreglu og fór að segja frá því sem gekk á í sambúðinni.“

„Ég var oft blá og marin“

Konan segir að maðurinn hafi oft gengið langt í líkamlegu ofbeldi. „Ég var oft blá og marin. Ég þurfti  hins vegar bara einu sinni að fara upp á spítala til að láta sauma mig. Ég fór aftur á móti oft til læknis með glóðarauga o.s.frv. Einu sinni setti hann sokkabuxur utan um hálsinn á mér, en dóttir mín bjargaði mér þá. Án hennar hjálpar veit ég ekki hvernig sú árás hefði endað.“

Börnin urðu oft vitni að ofbeldinu. „Þau urðu snemma snillingar í því að takast á við þetta. Þau létu sig annaðhvort hverfa eða róuðu hann niður með því t.d. að setjast í fangið á honum. Það var alltaf verið að læðast um á heimilinu. Það mátti ekki vekja hann því það vissi enginn hvað kynni að gerast. Það má því kannski segja að hann hafi stjórnað heimilinu hvort sem hann var vakandi eða sofandi.“

Konan segir að hún eða börnin hafi aldrei vitað við hverju var að búast. Hann hafi átt til að gjósa af engu tilefni. Það hafi því verið erfitt að reikna hann út. „Þegar hann beitti líkamlegu ofbeldi var hann yfirleitt drukkinn. Andlega ofbeldið var hins vegar alltaf til staðar. Andlega ofbeldið fannst mér verra. Það vill auðvitað enginn láta berja sig, en andlega ofbeldinu fylgir svo mikið niðurbrot. Ég var orðin þannig á tímabili að ég treysti mér ekki út í búð vegna kvíða.“

„Allir voru eins og lúbarðir hundar“

„Krakkarnir okkar fundu mikið fyrir þessu andlega ofbeldi, bæði heima og líka í vinnunni. Þau unnu með okkur í fyrirtæki sem við rákum saman. Þar stjórnaði hann öllu. Hann þurfti ekki endilega að segja mikið. Bendingar og augnaráðið var nóg til að allir hlýddu honum skíthræddir og allir voru eins og lúbarðir hundar.“

Konan segist hafa verið orðin mjög leikin í því að komast undan ofbeldinu. „Ég reyndi að tala við hann og reyndi eins og ég gat að ná honum niður. Ef hann ætlaði að taka í mig þá forðaði ég mér. Ég læsti að mér og beið þangað til hann róaðist eða sofnaði áfengisdauða.“

Maðurinn fór einu sinni í áfengismeðferð. Konan segir að hann hafi ekki farið í meðferð fyrir sjálfan sig, enda hefði hann byrjað að drekka tveimur dögum eftir að hann kom úr meðferð. Hún segir að þá hafi drykkjan versnað um allan helming.

„Það var eins og hann hefði engar tilfinningar“

Konan tók ákvörðun fyrir einu og hálfu ári um að skilja við manninn eftir að hafa búið með honum í tæplega 40 ár. „Hann veiktist alvarlega fyrir nokkrum árum. Ég fylgdi honum á spítalann, en hann þurfti að fara í stóra skurðaðgerð. Ég var mjög stressuð yfir veikindunum, en mér fannst sláandi að hann fann ekki fyrir neinu. Það var eins og hann hefði engar tilfinningar og gæti ekki fundið til. Ég var eitthvað svo gáttuð á þessu tilfinningaleysi og ég fór að hugsa hvernig þessi maður gæti sýnt öðrum tilfinningar þegar hann væri svona tilfinningalaus sjálfur.

Hann hefur líka aldrei séð eftir neinu sem hann hefur gert, jafnvel þó að hann berji mann og annan. Ég hef oft spurt hann hvort hann sjái ekki eftir því þegar hann hefur lamið mig eða börnin, en svarið hefur alltaf verið: „Þið áttuð þetta skilið.“

Eftir að hann var búinn að jafna sig á veikindunum fórum við í sólarlandaferð. Ég hef nú reynt ýmislegt með honum á ferðalögum erlendis. Hann var oftast nær fullur. Einu sinni barði hann mig þegar við vorum í utanlandsferð, en aðalmálið fyrir mig var hins vegar að passa að hann lenti ekki í lögreglunni. Í þessari ferð var hann drukkinn dag og nótt í hálfan mánuð og í lok ferðar var hann orðinn óskaplega veikur. Þegar kom að því að fara heim neitaði hann að fara. Ég gerði allt sem ég gat til að reyna að láta renna af honum. Þegar ég kom heim sagði ég hingað og ekki lengra. Ég hugsaði með mér: „Hvers vegna fór ég bara ekki heim og skildi hann eftir?“

„Þú skalt fá að gjalda fyrir það“

Konan og maðurinn hafa rekið saman fyrirtæki þar sem þau störfuðu bæði. Hún sá um bókhald og rekstur. Eftir skilnaðinn rak hann konuna út úr fyrirtækinu, en ekki er búið að ganga frá eignaskiptum. Búið er að leggja fram a.m.k. þrjár formlegar tillögur um eignaskipti, en hann hefur hafnað þeim öllum. Málið er núna á leið til Hæstaréttar og flest bendir til að þar verði ákveðið að selja allar eignir sem eru í búinu, fyrirtækið og húseignir. Konan segist hafa áhyggjur af því að hann hafi staðið þannig að rekstri fyrirtækisins að það stefni í þrot.

Konan segist ekki vita hvað maðurinn vill í sambandi við skilnaðinn. „Það er ekki hægt að tala við hann og ég botna hvorki upp né niður í honum. Hann er bara eins og biluð plata og segir: „Þú fórst af stað, þú kallaðir þetta yfir þig og þú skalt fá að gjalda fyrir það, hvernig sem ég fer að því.“ Þetta eru svakalegar hótanir,“ segir konan.

Konan segir að tíminn sem er liðinn frá því hún tók ákvörðun um að skilja sé búinn að vera mjög erfiður. „Sú hugsun hefur flögrað að mér að gefast upp og taka hann bara inn á heimilið aftur. Það er skelfilegt að standa í þessu. Fyrir mér er augljóst mál að maðurinn er mikið veikur, en lögin virðast ekki gera ráð fyrir því að menn geti hagað sér svona.“

Ákvað að kæra ofbeldið

„Lögreglan er búin að koma margsinnis í gegnum árin á heimilið út af ofbeldi hans. Hún hringdi og spurði hvort ég ætlaði að leggja fram kæru, en alltaf sagði ég að ég ætlaði að sjá til. Börnin okkar voru líka spurð hvort þau vildu kæra, en þau sögðust vilja geyma kæruna. Gögnin eru hins vegar til og ég fór á endanum, í byrjun þessa árs, og lagði fram kæru. Þá voru öll mál yngri en 15 ára tekin fyrir og lögreglan er að vinna þau. Rannsóknardeildin er hins vegar með mörg mál til meðferðar og vegna þess að ég er ekki í beinni hættu núna þá er mín kæra auðvitað ekki sett í forgang. Dóttir okkar ætlar líka að kæra hann fyrir líkamlegt ofbeldi.“

Konan segir að eiginmaður hennar eigi ýmsar óhugnanlegar hliðar. „Við áttum lengi tík og á vissum tímum, þegar hann var búinn að drekka lengi, fór hann að kvelja dýrið. Hann átti það til að snúa upp á lappirnar á henni, taka hana upp á skottinu og láta hana væla. Hún flúði oft undan honum. Síðar fengum við okkur annan hund og hann lét svona líka við hann. Hann var ekki að gera þetta meðan ég var viðstödd, en þegar hann var drukkinn sá ég stundum til hans. Ég veit ekki af hverju hann gerði þetta. Þetta er eitthvert sadista-eðli.“

Skeflilegt að hlusta á frásagnir barnanna

Konan segir að það hafi verið mjög erfitt fyrir börn þeirra að alast upp við drykkju og ofbeldi á heimilinu. Eldri börnin fluttu snemma burt af heimilinu. „Á tímabili vorum við með margt fólk í vinnu og ég var því á kafi í vinnu og gat lítið verið heima. Ég gat því ekki verndað eldri börnin okkar eins og ég hefði viljað. Ég verndaði hins vegar yngstu dóttur okkar eins og ég gat.

Eftir að ég tók ákvörðun um að skilja var tekin skýrsla af börnunum um það sem gekk á á heimilinu og það var skelfilegt fyrir mig að heyra frásagnir þeirra. Maður segir við sjálfan sig: „Hvað var ég að hugsa, að bjóða börnunum upp á þetta?“ Það er svo einkennilegt að sumu af því sem þau sögðu var ég búin að gleyma eða hreinlega að loka á. Það er eins og ég hafi týnt 10 árum úr lífi mínu. Mér er sagt að þetta sé mjög eðlilegt, líkaminn bregðist svona við áföllum. Hann útilokar slæmu minningarnar.“

Konan segir að önnur dóttir sín hafi átt mjög erfitt og hún segist ekki vera í vafa um að það tengist ofbeldi föður hennar. „Hún er haldin miklum kvíða. Hún er búin að þola mikið ofbeldi af hálfu föður síns. Hann er búinn að nefbrjóta hana og beita hana miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi í gegnum tíðina. Hún var alltaf í því hlutverki að reyna að stilla til friðar. Eftir að hún varð eldri setti hún honum stólinn fyrir dyrnar og þá kom til árekstra á milli þeirra. Fyrir nokkrum árum, þegar hún var langt gengin með barn, þurfti ég að kalla á lögreglu því hann ætlaði að berja hana.“

„Þú verður að velja á milli áfengisins og okkar“

„Dóttir mín hefur  skorað á pabba sinn að hætta að drekka, annars myndi hún ekki treysta sér til að koma með barnabörnin í heimsókn. Hún sagði: „Þú verður að velja á milli áfengisins og okkar.“ Það sama sögðu hin börnin okkar. Hann valdi vínið og það leiddi til þess að þau fóru og létu ekki sjá sig. Þau hafa ekkert samband við hann í dag.

Það sem mér finnst ótrúlegast er hins vegar að hann reynir allt sem hann getur til að reyna að komast í samband við dóttur okkar sem hefur liðið hvað mest fyrir framkomu hans. Hún er verst farin af okkar börnum og hann finnur eitthvert tak á henni sem hann reynir að notfæra sér. Það er stöðugt símaónæði af honum.“

Konan segist gera sér grein fyrir að þó að hún nái á endanum að skilja við manninn sé hún ekki laus við hann. „Hann hefur mörgum sinnum sagt við mig að hann muni aldrei láta mig í friði. Ég hélt að þetta væru kannski innantómar hótanir, en hann hefur staðið við allt sem hann var búinn að segja þegar ég ræddi við hann um skilnað, en það var ég margoft búin að hóta að gera í gegnum árin.“

Leyndi ofbeldinu

Konan segist stundum hafa rætt við fjölskyldu eiginmannsins um áfengisvanda hans. „Þau vissu alveg um drykkjuskap hans og voru búin að ræða við hann. Ég talaði hins vegar ekki um heimilisofbeldið við þau. Ég fór leynt með það. Börnin mín minntust aldrei á ofbeldið við nokkurn mann. Vegna þess hversu erfitt hann átti með að umgangast áfengi þá fór ég ekki mikið meðal fólks. Hann var alltaf fyllstur og ég var alltaf að burðast með skömm yfir ástandinu.“

Konan segir að viðbrögð fjölskyldu hans við ákvörðun hennar um að skilja hafi komið henni á óvart. „Hann á systkini og móður á lífi og það hefur alla tíð verið mikill samgangur á milli okkar og gott samband. Það talar hins vegar enginn við mig í dag og ekki við börnin mín heldur. Það er eins og við höfum verið strikuð út. Ég veit ekki hvers vegna. Kannski telur fjölskylda hans að ég hafi átt að halda áfram að styðja hann.

Ég gat hins vegar ekki meir. Fyrir utan ofbeldið og drykkjuna var hann farinn að sitja einn og tala við fólk sem var látið. Mér fannst þetta allt orðið svo óhugnanlegt og ég spurði mig: „Eftir hverju er ég að bíða?“

Konan segir afar erfitt að þurfa að takast á við svona erfiðan og langdreginn skilnað. Hún sé að vinna úr afleiðingar sambúðarinnar hjá áfallateymi Landspítalans, Al-Anon og Stígamótum. „Batinn stoppar hins vegar þegar maður þarf sífellt að takast á við manninn. Það er alltaf verið að rífa ofan af sárinu.“

"Í þessari utanlandsferð var hann drukkinn dag og nótt í hálfan mánuð og í lok ferðar var hann orðinn óskaplega veikur. Þegar kom að því að fara heim neitaði hann að fara.“ mbl.is
Konan hafði margsinnis samband við lögreglu vegna ofbeldis mannsins á …
Konan hafði margsinnis samband við lögreglu vegna ofbeldis mannsins á heimilinu. Hún treystir sér hins vegar ekki til að leggja fram kæru fyrr en hún var búin að skilja við hann. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is