Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, segir að Færeyingar gætu þurft að auka enn síldarkvóta sinn komi til þess að Evrópusambandið geri alvöru úr hótunum sínum um að setja löndunarbann á síld og makríl frá eyjunum.
Ráðherrann lýsti í gær vonbrigðum sínum með ákvörðun fiskveiðinefndar ESB að heimila framkvæmdastjórn þess að grípa til refsiaðgerða gegn Færeyingum. Mikil reiði er í Færeyjum vegna málsins, en löndunarbannið gæti tekið gildi á næstu vikum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta Morgunblaðinu í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefur í samtölum við erlenda fjölmiðla lýst miklum vonbrigðum með að ESB velji að fara leið viðskiptaþvingana gegn Færeyjum. Þar kemur fram það mat ráðherrans að þvinganir stærri aðila gegn smærri aðilum líkt og ESB stefnir í gagnvart Færeyjum séu ekki leiðin til að leysa deilumál á milli vinaþjóða.