Hugsanlega er ástæða til þess að auka makrílkvótann í Norðaustur-Atlantshafi í ljósi rannsókna þess efnis að stofninn hafi verið verulega vanmetinn til þessa. Þetta sagði sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbeth Berg-Hansen, við fjölmiðla í kjölfar fundar með norskum makrílsjómönnum í vikunni.
Rannsókn norsku hafrannsóknastofnunarinnar sem lauk í sumar bendir til þess að stærð makrílstofnsins hafi til þessa verið verulega vanmetin. Haft hefur verið eftir norska fiskifræðingnum Jens Christian Holst, sem starfar hjá stofnuninni, í norskum fjölmiðlum að stofninn sé orðinn það stór að hann stofni bæði sér og öðrum tegundum sem treysta á sömu fæðu í hættu. Hætta sé á hruni makrílstofnsins af þessum sökum og að auka þyrfti makrílveiðar verulega til þess að stemma stigu við því.
Berg-Hansen sagðist ætla að ræða málið við Evrópusambandið enda gætu Norðmenn ekki farið að dæmi Íslendinga og Færeyinga og gefið út einhliða makrílkvóta að því er segir á fréttavef norska dagblaðsins Sunnmørsposten. Það myndi að hennar sögn ekki vera í samræmi við afstöðu Norðmanna til þessa.
„En það þýðir ekki að ég ræði ekki við samstarfsaðila okkar - fyrst og fremst Evrópusambandið. Það kann að vera góður grundvöllur fyrir því að veiða meiri makríl í ár en við getum ekki tekið einhliða ákvörðun um það,“ er haft eftir ráðherranum. Hún lagði ennfremur áherslu á mikilvægi þess að allar ákvarðanir í þessum efnum væru byggðar á vísindalegum gögnum.
Ennfremur er rætt við framkvæmdastjóra norskra útgerðarmanna, Audun Maråk, og haft eftir honum að ef rannsóknir norsku hafrannsóknastofnunarinnar séu á rökum reistar sé óábyrgt að auka ekki veiðar á makríl.