Vill skoða aukinn makrílkvóta

Lisbeth Berg Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Lisbeth Berg Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs. Wikipedia/Bernt Sønvisen

Hugs­an­lega er ástæða til þess að auka mak­ríl­kvót­ann í Norðaust­ur-Atlants­hafi í ljósi rann­sókna þess efn­is að stofn­inn hafi verið veru­lega van­met­inn til þessa. Þetta sagði sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Nor­egs, Lis­beth Berg-Han­sen, við fjöl­miðla í kjöl­far fund­ar með norsk­um mak­rílsjó­mönn­um í vik­unni.

Rann­sókn norsku haf­rann­sókna­stofn­un­ar­inn­ar sem lauk í sum­ar bend­ir til þess að stærð mak­ríl­stofns­ins hafi til þessa verið veru­lega van­met­in. Haft hef­ur verið eft­ir norska fiski­fræðingn­um Jens Christian Holst, sem starfar hjá stofn­un­inni, í norsk­um fjöl­miðlum að stofn­inn sé orðinn það stór að hann stofni bæði sér og öðrum teg­und­um sem treysta á sömu fæðu í hættu. Hætta sé á hruni mak­ríl­stofns­ins af þess­um sök­um og að auka þyrfti mak­ríl­veiðar veru­lega til þess að stemma stigu við því.

Berg-Han­sen sagðist ætla að ræða málið við Evr­ópu­sam­bandið enda gætu Norðmenn ekki farið að dæmi Íslend­inga og Fær­ey­inga og gefið út ein­hliða mak­ríl­kvóta að því er seg­ir á frétta­vef norska dag­blaðsins Sunn­mør­sposten. Það myndi að henn­ar sögn ekki vera í sam­ræmi við af­stöðu Norðmanna til þessa. 

„En það þýðir ekki að ég ræði ekki við sam­starfsaðila okk­ar - fyrst og fremst Evr­ópu­sam­bandið. Það kann að vera góður grund­völl­ur fyr­ir því að veiða meiri mak­ríl í ár en við get­um ekki tekið ein­hliða ákvörðun um það,“ er haft eft­ir ráðherr­an­um. Hún lagði enn­frem­ur áherslu á mik­il­vægi þess að all­ar ákv­arðanir í þess­um efn­um væru byggðar á vís­inda­leg­um gögn­um.

Enn­frem­ur er rætt við fram­kvæmda­stjóra norskra út­gerðarmanna, Audun Maråk, og haft eft­ir hon­um að ef rann­sókn­ir norsku haf­rann­sókna­stofn­un­ar­inn­ar séu á rök­um reist­ar sé óá­byrgt að auka ekki veiðar á mak­ríl.

mbl.is