Fordæmir framgöngu ESB

Ljósmynd/Vestnorræna ráðið

„Vestn­or­ræna ráðið for­dæm­ir harðlega hót­an­ir Evr­ópu­sam­bands­ins um refsiaðgerðir gegn Íslandi og Fær­eyj­um vegna mak­ríl­veiða land­anna, sem og refsiaðgerðir sam­bands­ins gegn Fær­eyj­um vegna síld­ar­veiða þeirra.“

Þannig hefst álykt­un sem samþykkt var í dag af Vestn­or­ræna ráðinu en aðild að því eiga Ísland, Fær­eyj­ar og Græn­land. Árs­fund­ur ráðsins stend­ur nú yfir í Nars­ar­su­aq á Græn­landi og sitja hann 18 þing­menn frá lönd­un­um þrem­ur.

Fram kem­ur enn­frem­ur í álykt­un­inni að fram­ganga Evr­ópu­sam­bands­ins sé ekki ásætt­an­leg í alþjóðasam­skipt­um. Því er mót­mælt að sam­bandið hafi kosið í krafti stærðar sinn­ar að fara þá leið að hóta ná­grönn­um sín­um. Og það þrátt fyr­ir að fyr­ir liggi niður­stöður norskra haf­rann­sókna að mak­ríl­stofn­inn kunni að skapa um­hverf­is­vanda í haf­inu vegna stærðar sinn­ar.

Vak­in er at­hygli á því hversu mik­il áhrif slík­ar refsiaðgerðir geti haft á fá­menn sam­fé­lög vestn­or­rænu land­anna og eru Norðmenn enn­frem­ur hvatt­ir til þess að styðja Ísland og Fær­eyj­ar og hafna fram­göngu Evr­ópu­sam­bands­ins. Þá er það harmað að sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Nor­egs, Lis­beth Berg-Han­sen, hafi lýst yfir stuðningi við aðgerðir sam­bands­ins. Eru norsk stjórn­völd hvött til þess að end­ur­skoða þá af­stöðu sína.

Enn­frem­ur er Norður­landaráð hvatt til þess að beita sér í mál­inu og styðja Ísland og Fær­eyj­ar. Unn­ur Brá Kon­ráðsdótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og formaður Íslands­deild­ar Vestn­or­ræna ráðsins, seg­ir í sam­tali við mbl.is að hljóðið sé þungt í Fær­ey­ing­um vegna máls­ins. Það sé sam­eig­in­legt álit full­trúa í ráðinu að staða land­anna sé sterk­ari gagn­vart mál­inu ef þau standi sam­an og álykt­un­in sé liður í því.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina