Smábátasjómenn komust í feitt við Voga á Vatnsleysuströnd í gær þar sem greinilega mátti sjá gríðarstórar spriklandi makríltorfur í sjávarborðinu. Veiðarnar hafa gengið hægt fram að þessu og mikill tími farið í að leita uppi makrílinn.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, menn engu að síður bjartsýna á að úr sé að rætast. Hann segir ljóst að miðað við þann fjölda báta sem stundi veiðarnar þurfi að bæta í færapottinn, sem nú er 3.200 tonn, en makrílveiðar smábátasjómanna séu mikil lyftistöng fyrir dreifðar byggðir.
Vinnsluskipum sem frysta makrílinn um borð hefur fjölgað út af Snæfellsnesi og Breiðafirði síðustu daga, þar sem vel hefur veiðst af góðum og óblönduðum makríl.