Hópurinn Hjartað í Vatnsmýrinni hefur safnað ríflega 44 þúsund undirskriftum frá því hópurinn hóf undirskriftasöfnun til stuðnings áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.
Söfnunin hófst um síðustu helgi en ráðgert er að afhenda undirskriftirnar 20. september nk. þegar frestur til þess að gera athugasemdir við aðalskipulag Reykjavíkurborgar rennur út. Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir því að flugvöllurinn víki fyrir blandaðri byggð á næstu árum.
Söfnunin fer fram á heimasíðu hópsins, lending.is, en þar er skorað á Reykjavíkurborg og Alþingi að „tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar.“