23 ára gamall blaðaljósmyndari varð fyrir hópnauðgun af hálfu fimm manna í Mumbaí í Indlandi í gær, að sögn lögreglu. Konan var að störfum þegar ráðist var á hana og liggur nú á sjúkrahúsi alvarlega slösuð. 35 hafa verið handteknir vegna málsins.
Mennirnir gengu einnig í skrokk á karlkyns vini konunnar sem var með henni í för.
Árásin minnir enn á ný á hópnauðgunina sem 23 ára gamall læknanemi varð fyrir um borð í strætisvagni í Delhi í desember í fyrra. Konan lést í kjölfarið og vakti árásin gríðarlega umræðu um hatursglæpi gegn konum á Indlandi.
Konan sem ráðist var á í gær vann fyrir tímarit sem gefið er út á ensku í Mumbaí og hafði verið send út til að taka ljósmyndir af gamalli textílverksmiðju sem er yfirgefin og í niðurníðslu.
BBC hefur eftir lækni á Jaslok sjúkrahúsinu í Mumbai að konan liggi þar enn en líðan hennar sé nú stöðug. Lögreglan vinnur að því að taka skýrslur af fólki og hefur sent frá sér teikningar af 5 mönnum sem eru eftirlýstir.
Árásin er olía á eld reiðinnar sem fyrir var í Indlandi vegna tíðra árása á konur. Margir hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum og lýst andstyggð sinni á árásarmönnunum.
„Þetta er sorgleg staðfesting á því að ENGIN borg í Indlandi er örugg fyrir konur,“ tísti indverska leikkonan Gul Panag á Twitter.
Stjórnmálamaðurinn Nirmala Sitharam, í stjórnarandstöðuflokknum Bharatiya Janata, segir árásina viðbjóðslega. „Skömmin er okkar! Hversu lengi og hversu margar í viðbót áður en glæpamönnunum verður refsað? Vaknaðu, Indland!“