Vegna fyrirhugaðra refsiaðgerða Evrópusambandsins gegn Færeyingum vegna síldveiða þeirra hefur verið rifjað upp þar í landi að árið 1996 hefðu færeysk stjórnvöld ekki lokað höfnum sínum fyrir dönskum síldveiðiskipum þrátt fyrir þrýsting frá Íslandi, Noregi og Rússlandi um að gera það.
Færeyskir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta undanfarna daga en árið 1996 stóð yfir síldveiðideila í kjölfar þess að Evrópusambandið ákvað að taka sér einhliða 150 þúsund tonna kvóta úr norsk-íslenska síldarstofninum. Norðmenn og Íslendingar deildu þá við Dani um veiðarnar úr stofninum. Evrópusambandið hafði þá ekki verið viðurkennt sem strandríki og þar með beinn aðili að slíkum deilum en það gerðist árið eftir.
Dönsk stjórnvöld fóru fram á það við Færeyinga að þeir lokuðu ekki höfnum sínum þrátt fyrir þrýsting frá Norðmönnum og Íslendingum og urðu þeir við því. Nú ætli Evrópusambandið hins vegar að refsa Færeyingum fyrir að taka sér einhliða síldarkvóta. Danir séu þó í annarri stöðu nú en Færeyingar 1996 enda séu þeir hluti af sambandinu og séu þar með skuldbundnir til þess að framfylgja ákvörðunum þess. Þar með talið að refsa Færeyingum komi til þess.
Fram kemur í fréttinni að Færeyingar hafi rifjað þessa sögu upp í samskiptum sínum við danska utanríkisráðuneytið vegna síldardeilunnar.