Yfirvöld í Noregi bönnuðu fyrir helgi löndun á síld frá Færeyjum þar í landi. Þetta kemur fram á norska fréttavefnum Nationen en þar segir að bannið komi til vegna veiði Færeyinga á síld umfram kvóta sem þeim var úthlutað.
Bann Evrópusambandsins við innflutningi og löndun á síld og makríl frá Færeyjum tekur formlega gildi á morgun. Í tilkynningu frá Evrópusambandi kom fram að gripið væri til aðgerðanna vegna ósjálfbærra veiða Færeyinga á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum. Aðgerðirnar fela í sér bann við löndun færeyskra skipa á síld og makríl sem skip sem Færeyingar stýra hafa veitt úr þessum stofnum.