Refsiaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart Færeyingum vegna síldveiða þeirra tóku gildi á miðnætti í gær en aðgerðirnar fela í sér að bannað er að landa færeyskri síld og makríl í höfnum innan sambandsins.
Fram kemur á færeyska fréttavefnum Portal.fo að höfnum í Danmörku hafi nú meðal annars verið lokað fyrir færeyskum skipum sem hyggjast landa síld eða makríl. Hins vegar hafi sjávarútvegurinn í Færeyjum þegar gert ráðstafanir til þess að selja færeyska síld og makríl meðal annars til Rússlands og Afríkuríkja.
Ennfremur segir að dönsk stjórnvöld hafi lýst því yfir að þau hafi ekki aðra kosti en að fylgja eftir ákvörðun Evrópusambandsins en spurningin sé hins vegar hvaða áhrif málið kunni að hafa á samband Færeyinga og Dana.
Þannig hafi lögmaður Færeyja, Kaj Leo Holm Johannesen, sagt að hann tryði því ekki að Danir myndu loka höfnum sínum fyrir færeyskri síld og makríl. Ef það gerðist hins vegar myndi það hafa alvarleg áhrif á samband þjóðanna. Hann hafi hins vegar ekki sagt með hvaða hætti.
Johannesen fundar í dag með Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, þar sem búist er við að síldardeilan verði á meðal umræðuefna.