„Þetta snýst um réttinn til þess að veiða“

„Við vit­um að sjó­menn inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins veiða miklu meira en sem nem­ur út­gefn­um kvóta. Þeir mega kasta fiski út­byrðis sem er ekki tek­inn af kvót­an­um þannig að þetta snýst ekki um sjálf­bærni eins og sam­bandið held­ur fram. Þetta snýst um rétt­inn til þess að veiða, hver eigi rétt á kvót­an­um.“

Þetta seg­ir fær­eyski skip­stjór­inn Bogi Jac­ob­sen í sam­tali við frétta­mann breska rík­is­út­varps­ins BBC um refsiaðgerðir Evr­ópu­sam­bands­ins gegn Fær­ey­ing­um vegna síld­veiða þeirra sem tóku gildi á miðnætti í gær.

Einnig er rætt við Kaj Leo Johann­esen, lög­mann Fær­eyja, sem bend­ir á að síld­in sé í miklu meira mæli í fær­eyskri lög­sögu en áður og taki þar æti frá öðrum teg­und­um. Fær­ey­ing­ar eigi því rétt á auk­inni hlut­deild í síld­arkvót­an­um. „Sá sem skaðar síld­ar­stofn­inn er ekki sá sem veiðir 5% held­ur sá sem veiðir 95%. En ég vona að það tak­ist að ná sam­komu­lagi um lausn,“ seg­ir Johann­esen.

Þá er rætt við Villy Søvn­dal, ut­an­rík­is­ráðherra Dan­merk­ur, sem stadd­ur var í Fær­eyj­um til þess að lýsa yfir stuðningi við Fær­ey­inga. Fjallað er um ein­kenni­lega stöðu Dana sem séu í ríkja­banda­lagi með Fær­eyj­um en þurfi eft­ir sem áður að fram­fylgja refsiaðgerðum Evr­ópu­sam­bands­ins gegn Fær­ey­ing­um vegna veru sinn­ar í sam­band­inu.

Fær­ey­ing­ar hafa kært refsiaðgerðirn­ar til Sam­einuðu þjóðanna á grund­velli alþjóðahaf­rétt­inda­sátt­mál­ans og er Søvn­dal spurður að því hvernig hann telji að niðurstaðan í þeim efn­um ætti að vera: „Ég er ekki dóm­ar­inn, ég eft­ir­læt dómur­un­um að taka þá ákvörðun.“ Bent á það að svarið lýsi ekki ein­læg­um stuðning við Fær­ey­inga svar­ar hann: „Nei, ég er bara að segja að ég sé ekki dóm­ar­inn, það er ekki Dan­mörk sem mun ákveða niður­stöðu þess máls.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina