Magn makríls innan íslenskrar lögsögu er svipað og mældist árið 2012, samkvæmt niðurstöðum makrílleiðangurs Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna í júlí og ágúst.
Magn og útbreiðsla makríls á rannsóknarsvæðinu var metið út frá afla í togum sem tekin voru með reglulegu millibili og var rannsóknasvæðið um 3,2 milljónir ferkílómetra.
Heildarvísitala makríls á svæðinu var um 8,8 milljón tonn, þar af voru 1,5 milljón tonn innan eða rúm 17% innan íslenskrar efnahagslögsögu.
„Vísitalan er sú hæsta sem mælst hefur á heildarsvæðinu, en magn makríls innan íslenskrar lögsögu var svipað og mældist árið 2012. Svæðið sem kannað var í ár var mun umfangsmeira en áður og kann það að einhverju leyti að skýra þá aukningu sem mældist á heildarmagninu. Líkt og fyrri ár var einungis hluti lögsögu Evrópusambandsins kannaður,“ segir á vef Hafrannsóknastofnunar.
Fjögur skip tóku þátt í leiðangrinum, eitt frá Íslandi og Færeyjum og tvö frá Noregi, sem fram fór á tímabilinu 2. júlí til 9. ágúst.
Markmið leiðangursins var að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annarra uppsjávarfiskstofna í Norðaustur-Atlantshafi meðan á ætisgöngum þeirra um norðurhöf stendur ásamt því að kanna ástand sjávar og átustofna á svæðinu. Öll skipin fjögur notuðu samskonar flotvörpu sem sérstaklega hefur verið þróuð fyrir þennan leiðangur og var Rs Árni Friðriksson að taka þátt í þessum leiðangri í fimmta sinn.
Í leiðangrinum varð vart við töluvert af tiltölulega smáum makríl og aldursgreiningar sýna nokkuð hátt hlutfall árgangsins frá 2010 (20% af fjölda), en einnig voru áberandi árgangarnir frá 2006, 2007 og 2011 með um 15% hver. Þetta er í samræmi við afla íslenskra veiðiskipa í sumar.
„Þó svo að niðurstöður þessar séu ekki ennþá lagðar til grundvallar við mat á stofnstærð makríls hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) staðfesta þær líkt og leiðangrar fyrri ára víðáttumikla útbreiðslu makrílsins. Þá sýna þær að elsti makríllinn ferðast lengst í sínum ætisgöngum í Norðaustur-Atlantshafi á sumrin, en hann var einkum að finna vestast og nyrst á rannsóknasvæðinu,“ segir á vef Hafró.