ESB virðir ákvörðun Íslands

AFP

„Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins hef­ur komið því skýrt á fram­færi við um­sókn­ar­rík­in að þau hafi óskað eft­ir inn­göngu í sam­bandið og að sú ósk birt­ist í um­sókn þeirra. Það er hluti af skuld­bind­ingu þeirra að upp­fylla nauðsyn­leg skil­yrði og gera það sem þarf að gera í um­sókn­ar­ferl­inu.“

Þetta sagði Peter Stano, talsmaður stækk­un­ar­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins, á blaðamanna­fundi í vik­unni um stöðu um­sókn­ar Íslands um inn­göngu í sam­bandið. Hann sagði að skuld­bind­ing Evr­ópu­sam­bands­ins væri á móti að veita um­sókn­ar­ríki inn­göngu í það ef það óskaði þess, ef það upp­fyllti skil­yrðin fyr­ir því og ef ríki sam­bands­ins samþykktu það ein­róma að því gefnu að viðræðum þar um yrði lokið.

„Þannig að það er ekki okk­ar að tjá okk­ur um það hvað okk­ur finnst um af­stöðu viðkom­andi rík­is. Vilji það ganga í Evr­ópu­sam­bandið þá send­ir það um­sókn og held­ur áfram viðræðuferl­inu. Ef það vill ekki ganga í sam­bandið þá annað hvort hef­ur ríkið ekki viðræður eða stöðvar þær,“ sagði hann.

Staðan væri þannig í dag að enn væri í gildi samþykki ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins fyr­ir því að hefja viðræður við Ísland. Hins veg­ar biði sam­bandið eft­ir niður­stöðu út­tekt­ar ís­lenskra stjórn­valda á ferl­inu og stöðunni inn­an þess „enda mun­um við virða ákv­arðanir Íslands hvort sem þær verða tekn­ar af ís­lensku rík­is­stjórn­inni, ís­lenska þing­inu eða ís­lensk­um kjós­end­um“.

Hins veg­ar væri það staðföst sann­fær­ing Evr­ópu­sam­bands­ins að besti vett­vang­ur­inn fyr­ir sam­skipti Íslands og sam­bands­ins væri um­sókn­ar­ferlið og að inn­ganga Íslands yrði báðum aðilum til góðs. „En auðvitað virðum við hverja þá ákvörðun sem Íslend­ing­ar taka.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina