Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, segist undrandi á þeirri fullyrðingu Magnúsar Karls Magnússonar, deildarforseta læknadeildar HÍ, að klínískt læknanám sé í hættu.
„Sem yfirmaður kennslu- og vísinda í læknisfræði á Landspítala þá kemur mér á óvart sú fullyrðing deildarforseta læknadeildar á mbl.is að klínískt nám í lyflæknisfræði sé í hættu. Mér er ekki kunnugt um að svo sé og hef engar upplýsingar undir höndum sem gætu bent í þá átt.
Ég hlýt að túlka orð deildarforseta þannig að prófessorar í lyflækningum við læknadeild hyggist hætta störfum á Landspítala, þá þætti mér eðlilegra að þeir tilkynntu það með öðrum hætti en á mbl.is, með fullri virðingu fyrir þeirri vönduðu fréttaveitu.
Sé þetta raunin, að prófessorar í lyflækningum við læknadeild hyggist hætta störfum á Landspítala, mun spítalinn nú þegar leita annarra leiða til þess að tryggja kennslu í lyflækningum,“ segir Ólafur.