Dómur verður kveðinn upp í máli gegn fjórum körlum ,sem ákærðir eru fyrir að hafa nauðgað ungri konu í strætisvagni í Nýju-Delí, þann 10. september.
Þetta kom fram í máli dómsforsetans í morgun en verjendur mannanna hafa ítrekað óskað eftir því að málinu verði frestað. „Þið hafið tafið þessi málaferli nægjanlega. Dómur minn kemur þann 10.
Niðurstaða í einni ákæru í málinu var birt á laugardag er unglingadómstóll komst að þeirri niðurstöðu að piltur, sem var sautján ára er nauðgunin átti sér stað, væri sekur um að hafa tekið þátt í hópnauðguninni. Hann var dæmdur í þriggja ára endurhæfingarvist á unglingaheimili.
Fjórmenningarnir eiga allir yfir höfði sér dauðadóm ef þeir verða fundnir sekir um alvarlegustu glæpina sem þeir eru ákærðir fyrir, hrottalega nauðgun og morð auk þjófnaðar.
Alls voru sex ákærðir fyrir að hafa nauðgað konunni en einn þeirra, sá sem ók strætisvagninum fannst látinn í klefa sínum í mars. Maðurinn er talinn hafa verið forsprakki hópsins.
Hópnauðgunin hefur valdið mikilli reiði á Indlandi og víðar um heim og leitt til fjölmennra mótmæla. Um leið hefur hún vakið athygli á slæmri stöðu kvenna á Indlandi þegar kemur að kynferðisglæpum.
Unga konan, sem var 23 ára háskólanemi, var á leið heim úr bíó í strætó ásamt karlkyns vini sínum þegar múgur karlmanna réðst á þau, misþyrmdi þeim og nauðgaði henni. Þau voru skilin eftir í blóði sínu í vegkanti. Hún lést af sárum sínum milli jóla og nýárs.