Stöðuna á lyflækningasviði Landspítala má ekki nema að hluta rekja til niðurskurðar í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þessi þáttur læknisfræðinnar hefur átt undir högg að sækja um allan heim en Íslendingar vanrækt að bregðast við því. Þetta segir Runólfur Pálsson, formaður Félags íslenskra lyflækna.
„Þetta er sorgleg staða sem hefur verið að þróast og verið fyrirsjáanleg í allnokkurn tíma, en þetta varðar miklu stærra mál sem er skipulag nútímaheilbrigðisþjónustu,“ segir Runólfur.
„Það sem er athyglisverðast er að við höfum ítrekað vakið athygli á því, innan sjúkrahússins, innan heilbrigðisþjónustunnar og meðal ráðamanna, að eitthvað þurfi að gera hér sem annars staðar. En hlutirnir eru vanræktir alveg endalaust.“
mbl.is hefur fjallað um það síðustu daga að alvarlegur læknaskortur er kominn upp á stærsta sviði Landspítalans, lyflækningasviði, þar sem horfur eru á að aðeins 5-6 læknar vinni fulla vinnu með vöktum í haust, í stað 25 lækna eins og gert er ráð fyrir.
Ástæðan er ekki sú að peninga skorti til að greiða fyrir stöðurnar, heldur virðast læknar ekki geta hugsað sér að vinna við þær aðstæður sem eru á lyflækningasviði. Sem dæmi bárust engar umsóknir um stöður 11 námslækna í lyflækningum, sem auglýstar voru fyrir stuttu.
Runólfur segir að framhaldsnámið í almennum lyflækningum, sem byggt hefur verið upp síðustu ár, sé afar mikilvægur þáttur í starfinu en hafi liðið fyrir aðstæður á sjúkrahúsinu.
Aðgerðaráætlun var virkjuð spítalanum á mánudag til að bregðast við manneklunni. Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, sagði í samtali við mbl.is að áætlunin muni vera í gildi um nokkurra vikna skeið. Ekki fylgir hins vegar sögunni hvað eigi að taka við að því loknu.
„Ég veit ekki hvað á að taka við, en það sem ég óttast er að ástandið muni hugsanlega versna enn frekar því álag muni aukast á þá sem eftir eru og þá kunni fleiri að láta af störfum,“ segir Runólfur.
„Það er ekki auðvelt að snúa þessu við, því þetta ástandið hefur þróast það langt á verri veg að það þarf stórátak.“
Hækkandi meðalaldur hefur haft mikil áhrif á þróun heilbrigðisþjónustunnar undanfarin ár. Það á ekki síst við um lyflækningar, enda telst stóraukið algengi langvinnra sjúkdóma nú vera eitt stærsta verkefni heilbrigðisþjónustu vestrænna þjóða.
Runólfur segir að þeim verkefnum sem lyflæknar sinna hafi fjölgað gríðarlega og mönnunarþörf aukist. Í grein sem hann ritaði í Læknablaðið í september 2012 sagði Runólfur að á Landspítala hafi ekki verið brugðist við þessari þróun. Afleiðingin sé sú að vinnuálag lyflækna hafi aukist fram úr hófi og það, ásamt ófullnægjandi starfsaðstöðu, komið verulega niður á akademísku starfi.
„Það hefur verið vanmönnun í langan tíma og farið vaxandi, ásamt auknu magni verkefna og slæmum aðstæðum á sjúkrahúsum. Þá verður þetta algjörlega óviðunandi og fólk bara gefst upp. Það er það sem hefur verið að gerast,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.
Hann bendir á að á nágrannalöndunum hafi verið reynt að bregðast við þróuninni með ýmsum hætti, s.s. fjölgun lækna og skipulagsbreytingum á heilbrigðiskerfinu.
„Á meðan aðrar þjóðir standa í stórræðum til að mæta þessu þá getum við ekki endalaust reitt okkur á að guð og lukkan verði okkur happadrjúg. Við höfum gjörsamlega vanrækt þetta mál.“
Aðspurður hvort efnahagshruninu á Íslandi sé ekki um að kenna segir Runólfur að vandinn sé stærri en svo að hann megi allan rekja til kreppunnar.
„Það er það sem kafsigldi okkur á endanum, þegar ráðist er í þennan mikla niðurskurð til viðbótar við það að hlutum var ekki sinnt á fullnægjandi hátt áður. Þetta er erfitt verkefni, það má ekki gera lítið úr því, en þetta gerist við ákveðnar kringumstæður sem hafa skapast án þess að brugðist sé við.“
Stjórnendur LSH hafa ítrekað að öryggi sjúklinga á spítalanum sé ekki ógnað þrátt fyrir allt það sem á hefur gengið síðustu ár. Aðspurður hvort hann geti tekið undir þetta verður Runólfur hugsi.
„Ég held ekki að fólk verði skilið eftir í reiðileysi án þess að fá viðeigandi þjónustu. Það er náttúrulega allt gert til að tryggja öryggi sjúklinga og þeir sem verða áfram við störf munu leggja sig mjög hart fram til þess. En hversu lengi það endist, þegar svona fáar hendur vinna svona umfangsmikið verk, það er svo aftur önnur saga.“
Runólfur telur að það þurfi marga til að koma að því að snúa þróuninni við. „Þetta er mjög stórt mál og það þarf stórátak. Og ég held að það sé óhætt að segja að ef það verður ekki gert þá mun það hafa grafalvarlegar afleiðingar.“