Læknaráði Landspítala þykir ljóst að svo mikil vöntun á starfandi læknum á lyflækningasviði kemur til með að hafa veruleg áhrif á læknisþjónustu við sjúklinga sem leita til spítalans. Þetta kemur fram í ályktun frá ráðinu.
Í ályktuninni ítrekar læknaráðið áhyggjur sínar af mönnun almennra lækna á lyflækningasviði spítalans. „Það ástand sem nú hefur myndast og kallað á bráðaaðgerðir í skipulagningu á læknaþjónustu innan sviðsins var þegar fyrirséð snemma í vor. Nú þegar læknanemar hefja nám á haustönn að nýju er einungis tæplega helmingur læknisstaða almennra lækna mannaðar við sviðið.
Læknaráði Landspítala þykir ljóst að svo mikil vöntun á starfandi læknum á lyflækningasviði kemur til með að hafa veruleg áhrif á læknisþjónustu við sjúklinga sem leita til spítalans. Þetta ástand mun einnig bitna á kennslu læknanema og er þá hlutverki spítalans sem háskólasjúkrahús stefnt í hættu.
Bráðaaðgerðir framkvæmdastjórnar Landspítalans fela í sér tilfærslu á verkefnum almennra lækna til sérfræðinga, sem þegar eru ofhlaðnir störfum. Læknaráð Landspítala óttast að með þessum aðgerðum komi sérfræðingar sviðsins til með að hverfa frá störfum.
Nauðsynlegt er að finna lausnir, bæði til skemmri og lengri tíma, til að mæta mönnunarvanda sviðsins. Læknaráð skorar á yfirstjórn spítalans að leysa úr þeim málum sem fyrst í samvinnu við lækna sviðsins.“