Síldveiðar ganga vel að sögn Róberts Axels Axelssonar, skipstjóra á Ingunni AK 150, en hún er við veiðar austan við land í grennd við Vopnafjarðargrunn.
„Síldin er bæði stór og falleg en nokkuð dreifð hérna á svæðinu. Ég geri ráð fyrir því að koma í land með vinnsluhæfan skammt á næstu dögum,“ segir Róbert.
Allnokkur skip eru á makrílveiðum enn og segir Róbert makrílinn yfirleitt hafa verið fínan á vertíðinni. „Við erum á eftir síldinni núna og búnir með makrílinn, en í síðasta túr sóttum við mjög fínan makríl. Hann var, eins og við mátti búast, nokkuð erfiður í upphafi og smár en óx á tímabilinu og styrktist.“