„Við vonum að allir komi til fundarins með því hugarfari að ná árangri og hótanir liggi ekki í loftinu,“ segir Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samninganefndar Íslands í makríldeilunni, um fyrirhugaðan fund í Reykjavík næstu helgi.
Í Morgunblaðinu í dag segir Sigurgeir hótanir ESB um refsiaðgerðir gegn Íslandi í aðdraganda fundarins vissulega valda vonbrigðum.
„Það segir sig sjálft að það eru ákveðin vonbrigði að eftir að þessi fundur var boðaður, og eftir að allir aðilar höfðu þegið fundarboð, skuli því enn hafa verið veifað að refsiaðgerðir ESB gegn Íslandi væru í undirbúningi. Við göngum engu að síður bjartsýnir til fundarins. Við erum með góðan málstað, og við ætlumst til að aðrir, ekki síður en við, komi með uppbyggilegar tillögur,“ segir Sigurgeir.