Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins segir Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum og yfirlæknir á Landspítalanum, að léleg laun séu meginástæða óánægju lækna á Landspítalanum.
„Það hefur verið orðað þannig að við værum komin fram af bjargbrúninni og þá væntanlega í frjálsu falli niður. Það er kannski ekki besta samlíkingin. Mín tilfinning er að við séum að renna niður bratta og hála brekku. Það er erfitt að snúa við, en kannski mögulegt,” segir Einar Stefánsson um ástand í mönnun á Landspítala og framtíðarhorfur íslenskrar læknastéttar. Þetta segir í viðtali sem blaðamaður Læknablaðsins tók við Einar.
„Meginástæðan fyrir óánægju lækna er launin. Læknastéttin hefur farið dálítið í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut, ekki viljað horfast í augu við þetta sem aðalatriðið, heldur bent á slæma aðstöðu, lélegt húsnæði og gömul tæki sem skýringar,“ segir þar ennfremur.
Tilefni samtals Læknablaðsins við Einar er grein sem hann, ásamt Sigurði Guðmundssyni, birti í Morgunblaðinu föstudaginn 2. ágúst síðastliðinn. Þar lýstu þeir slæmu ástandi á Landspítalanum og voru ómyrkir í máli um framtíðarhorfur.
„Þetta er ákveðinn vítahringur. Landspítali er ekki aðeins ósamkeppnisfær í launum við útlönd heldur einnig við kjör lækna á Íslandi utan spítalans. Það segir náttúrulega allt sem segja þarf að 1% unglækna var ánægt með starfsaðstöðu á Landspítalanum. Leitin að þessum ánægða einstaklingi stendur enn yfir,” segir Einar og ekki laust við að nokkurrar kaldhæðni gæti í þeim orðum, samkvæmt Læknablaðinu.
Hann segir unglækna ýmist flýja spítalann eða landið í leit að betri launum og vinnuaðstæðum og erfitt verk fyrir yfirlækna að draga fólk til baka fyrir helmingi lægri laun en það lægsta sem býðst í Svíþjóð.