Fjölskylda ungrar konu, sem lést eftir að hafa verið nauðgað hrottalega af hópi karlmanna í Nýju-Delí á Indlandi í desember í fyrra krefst þess að mennirnir sem nauðguðu henni og drápu verði dæmdir til dauða.
Fjórir karlar sem eru ákærðir fyrir að hafa tekið þátt í nauðguninni verða dæmdir á þriðjudag. Einn árásarmannanna fannst látinn fyrr á árinu í fangaklefa sínum og annar sem var sautján ára þegar glæpurinn var framinn var nýverið dæmdur í þriggja ára vistun í unglingafangelsi.
Mennirnir frömdu árásina í strætisvagni en fórnarlambið, 23 ára háskólanemi, var farþegi í vagninum ásamt félaga sínum. Mennirnir sex nauðguðu henni og misþyrmdu henni hrottalega með járnstöng. Henni var hent nakinni og alblóðugri út úr strætisvagninum og skilin eftir ásamt félaga sínum í vegkanti. Hún lést af sárum sínum tveimur vikum síðar. Henni tókst hins vegar að gefa lögreglu skýrslu um árásarmennina áður en hún lést.
Faðir stúlkunnar segir að fjölskyldan geti ekki sætt sig við neitt annað en að mennirnir verði teknir af lífi. Aðrir dómar séu ekki réttir fyrir þann glæp sem þeir frömdu. Ef þeir verði ekki dæmdir til dauða sendi það röng skilaboð út í samfélagið um hvernig eigi að bregðast við glæpum sem þessum .