„Cal var ótrúlegur og einstakur persónuleiki sem lifði viðburðarríku og skemmtilegu lífi. Ég er mjög heppin að hafa fengið að kynnast honum og taka þátt í hans ævintýralega heimi í nokkur ár. Hans verður sárt saknað,“ segir Anna Mjöll Ólafsdóttir en hún giftist Cal Wortington í apríl 2011 en hún sótti um skilnað eftir átta mánaða hjúskap.
Worthington var einn þekktasti bílasali Bandaríkjanna og taldist til milljarðamæringa. Í Bandarískum fjölmiðlum segir að hann hafi látist á heimili sínu í Kaliforníu í fyrradag á meðan hann horfði á íþróttir í sjónvarpinu.
Anna Mjöll sótti um skilnað frá Worthington eftir átta mánaða hjónaband og fór mál þeirra fyrir dómstóla. Lögfræðingur Önnu Mjallar sagði hana þá eiga tilkall til helmings í Beverly Hills-setri sem Cal Worthington keypti á meðan þau Anna Mjöll voru gift en setrið var metið á um 376 milljónir íslenskra króna.