Unga konan sem var nauðgað af hópi karlmanna í strætó í Nýju-Delí á Indlandi í desember er talin hetja í augu indversks samfélags en hún greiddi það dýru verði - með lífi sínu. Eftir að henni var nauðgað og misþyrmt stóð indverskur almenningur upp og mótmælti því ofbeldi sem margar indverskar konur hafa þurft að ganga í gegnum án þess að viðkomandi ofbeldismaður eða menn hafi þurft að sæta refsingu.
Í mars var lögum landsins breytt á þann veg að refsingar vegna kynferðislegs ofbeldis voru þyngdar til muna og dauðarefsing tekin upp við slíkum brotum.
Fjórir af þeim sex hrottum sem réðust á ungu konuna voru í dag dæmdir sekir um nauðgun og verður refsing þeirra kynnt á morgun. Þykir líklegt að þeir verði dæmdir til dauða.
Ungu konunnar er minnst víða og hennar er sárt saknað af fjölskyldu og vinum. Faðir hennar flutti úr sveitinni til borgarinnar og seldi land sitt svo hún gæti stundað nám.
Hún nam sjúkraþjálfun í læknadeildina í Dehradun og var að hefja starfsnám á sjúkrahúsi í Nýju-Delí þegar ráðist var á hana og vin hennar í strætisvagni er þau voru á leið heim úr bíó að kvöldlagi þann 17. desember sl.
Faðir hennar sem starfar sem töskuburðarmaður á flugvellinum í höfuðborginni er með 200 Bandaríkjadali á mánuði í laun. Hann seldi land fjölskyldunnar í Uttar Pradesh svo dóttir hans gæti orðið sú fyrsta í fjölskyldunni til að ljúka háskólanámi.
Til þess að greiða sinn hluta af náminu og öðlast fjárhagslegt sjálfstæði starfaði hún á tveimur stöðum með náminu.
„Hún svaf í þrjár klukkustundir á nóttu og við óttuðumst um að hún myndi missa meðvitund í kennslustundum. En hún neitaði sér um hvíld,“segir bekkjarsystir hennar úr náminu.
Skurðlæknir sem annaðist hana eftir árásina segir að hún hafi ætlað að berjast til síðasta blóðdropa en því miður hafi áverkar hennar verið lífhættulegir og hún lést þann 29. desember.