Hjúkrunarfræðingar áhyggjufullir

Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala, sem heyrir undir lyflækningasvið.
Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala, sem heyrir undir lyflækningasvið. mbl.is/Golli

„Við höfum miklar áhyggjur af stöðu mála á lyflækningasviði,“ segir Eygló Ingadóttir, formaður stjórnar hjúkrunarráðs á Landspítala. Stjórnin fundaði í gær vegna ástandsins sem skapast hefur á lyflækningasviði, stærsta sviði spítalans, og varð til þess að virkja þurfti sérstaka viðbragðsáætlun um mánaðamótin vegna læknaskorts.

„Það hefur verið gríðarlega þröngt í búi á lyflækningasviði og þetta er afleiðingin af því. Langvarandi fjárskortur hefur komið niður á öllu starfi og það er búið að vara mikið við þessu,“ segir Eygló.

Þjónusta sem er hvergi veitt annars staðar

Um 10 deildarlæknar sinna nú vinnu sem ætluð er 25 manns á lyflækningasviði spítalans.

Útlit er fyrir að staðan fari áfram versnandi um næstu mánaðamót, því að óbreyttu fækkar deildarlæknum þá enn frekar þannig að ekki verða eftir nema í besta falli 5 sem geta unnið fulla vinnu með vöktum.

Lyflækningasvið er stærsta svið spítalans, þar sem fengist er við mörg af algengustu og alvarlegustu heilsufarsvandamálum landsmanna. Oft er um að ræða þjónustu sem hvergi er veitt annars staðar á landinu. Undir lyflækningasvið heyra m.a. krabbameinslækningar, öldrunarsjúkdómar, hjartasjúkdómar, smitsjúkdómar, nýrnasjúkdómar o.fl.

Hefur áhrif á sjúklinga

Tæplega 1.400 starfsmenn eru á lyflækningasviði úr fjölmörgum starfsstéttum og ljóst er að læknaskorturinn og það álag og óvissa sem honum fylgir hefur keðjuverkandi áhrif.

„Þetta hefur áhrif á sjúklingana, þetta hefur áhrif á öryggi sjúklinga og þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á aðrar stéttir spítalans,“ segir Eygló.

Hjúkrunarráð sé mjög uggandi yfir stöðunni.

Eyrún Ingadóttir er formaður stjórnar hjúkrunarráðs á Landspítala
Eyrún Ingadóttir er formaður stjórnar hjúkrunarráðs á Landspítala mbl.is
mbl.is