Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi í dag að allar góðar ábendingar væru þegnar þegar kæmi að ástandinu á Landspítalanum, ekki síst lyflæknasviði. Hann sagði alla hafa verulegar áhyggjur af stöðunni og unnið væri að tillögugerði til að bregðast við.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, tók málið upp á þinginu. Hann sagðist fagna vinnu ráðherra en hvatti hann til að vinna hratt. „Ég held að það sé spurning um vikur, jafnvel daga þar til eitthvað alvarlegt gerist á Landspítalanum, sérstaklega á lyflæknasviði.“ Hann sagði að um langvarandi vanda væri að ræða sem þyrfti að leysa. Raunar þyrfti þjóðarsátt um mikilvægi Landspítalans.
Kristján Þór sagðist hafa fengið ábendinga frá læknum og stjórnendum og ýmsar leiðir væru til að leysa vandann. Hann stafaði meðal annars af gríðarlegu álagi á lyflæknasvið á undanförnum fjórum til fimm árum. Hægt væri að mæta því en það kallaði á aukið fjármagn og ekki væri í digra sjóði að sækja. Til þess þyrfti fjárveitingu. En allt væri undir í þessari vinnu, skipulagsbreytingar og fleira.
Þá sagði Kristján að þrátt fyrir allt væri unnið gríðarlega gott verk á spítalanum. Hann sagðist geta fullyrt að heilbrigðisþjónusta á Íslandi stæði mjög framarlega en hægt væri að gera betur.