Tryggja þarf að Reykjavíkurflugvöllur starfi áfram á núverandi stað innan borgarmarka Reykjavíkur þar til nýtt og viðunandi flugvallarstæði hefur verið fundið við eða í höfuðborginni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun stjórnar Samtaka atvinnurekenda á Akureyri en ályktunin var samþykkt í kjölfar hádegisfundar í dag þar sem Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, og Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri og einn af forsvarsmönnum samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni, ræddu um framtíð flugvallarins.
Ályktunin í heild:
„Stjórn Samtaka atvinnurekenda á Akureyri hvetur einróma til þess að stjórnvöld tryggi að Reykjavíkurflugvöllur fái áfram að starfa á núverandi stað innan borgarmarka Reykjavíkur þar til nýtt og viðunandi flugvallarstæði hefur verið fundið við eða í Reykjavík. Flugvöllurinn skiptir, eins og öllum er ljóst, miklu máli varðandi öryggi íbúa landsins sem þurfa á bráðahjálp að halda vegna veikinda eða slysa sem verða fjarri Reykjavík. Einnig gerir hann starfsmönnum fyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni kleift að sækja þjónustu stjórnsýslunnar sem nánast öll er staðsett í Reykjavík með mun lægri tilkostnaði en ef hann væri annars staðar. Staðsetning vallarins í dag styrkir þannig öflugri byggð utan Reykjavíkur og það er hagur allra landsmanna.“