Mikil lyftistöng fyrir sviðið

Landspítali
Landspítali mbl.is/Lára Halla

„Ég er afar glaður að heyra þessa yfirlýsingu. Þetta er gríðarlega mikil lyftistöng fyrir lyflækningasvið og þessar tillögur taka á flestöllum, ef ekki öllum áhyggjuefnum sem við höfum haft undanfarna mánuði og ár,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á lyflækningasviði Landspítalans. „Ég er afar glaður og bind miklar vonir við það að með þessari innspýtingu getum við náð að snúa við þeirri óheillaþróun sem hefur átt sér stað undanfarið.“

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, og Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, kynntu yfirlýsingu um aðgerðir á blaðamannafundi í morgun, en þær miða að því að bæta stöðu lyflækningasviðs spítalans sem unnið hefur verið þar eftir neyðaráætlun síðustu daga vegna skorts á læknum.

Lykilatriði í því að efla traust að miðla upplýsingum

Nokkuð hefur borið á umræðum um að ekki ríki traust milli starfsmanna og stjórnenda spítalans, að vandinn sé ekki aðeins peningalegs eðlis. Már segir að þegar hafi verið brugðist við þessu vandamáli. „Ég held að það sé eitthvað sem alltaf þarf að hafa hugfast og tryggja það að það séu góðar boðleiðir milli stjórnanda og annarra starfsmanna spítalans,“ segir Már.

Hann mun, ásamt Vilhelmínu Haraldsdóttur framkvæmdastjóri lyflækningasviðs, senda út vikulega pistla þar sem farið verður yfir þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni og framvindu þeirra. Verða pistlarnir sendir til allra lækna og hjúkrunardeildastjóra á spítalanum. „Lykilatriði í því að reyna að bæta traust sé að miðla upplýsingum.“

Álagið færist ekki yfir á aðra

Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að stuðningur við lækna verði aukinn verulega með því að nýta betur krafta og hæfni hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, klínískra lyfjafræðinga, ritara sérgreina og eftir föngum annarra starfsstétta. Már kveðjst ekki halda að aðeins sé verið að færa álagið af einni stétt á aðra.

„Við eigum eftir að útfæra þessar tillögur nánar,“ sagði hann í samtali við mbl.is. „ Á undanförnum árum hefur flækjustigið hjá sjúklingunum aukist gríðarlega mikið. Það er ekki óalgengt að fullorðinn einstaklingur útskrifist af spítalanum með sautján lyf.“ Langan tíma taki lækni að ganga frá útskrift sjúklingsins og hann geri þá ekki annað á meðan, líkt og að sinna stofugangi og öðru. Klínískir lyfjafræðingar geti meðal annars sinnt þessu starfi. 

„Þetta er bara fyrsta skrefið af mörgum en mikilvægt skref,“ segir Már.


mbl.is